Braut gegn ungri fatlaðri konu

mbl.is/Kristinn

Landsréttur staðfesti í gær tveggja ára fangelsisdóm yfir karlmanni sem braut kynferðislega gegn fatlaðri konu sem vart var af barnsaldri og bjó um tíma á heimili hans þar sem maðurinn og kona hans voru stuðningsfjölskylda hennar. Manninum er einnig gert að greiða ungu konunni eina milljón króna í miskabætur og tæplega 4,5 milljón króna í sakarkostnað.

Segir í niðurstöðu Landsréttar að maðurinn sé 36 árum eldri en unga konan sem hafði nýlega búið á heimili hans um nokkurt skeið, þar sem hann var í hlutverki heimilisföður. Honum hafi átt að vera ljóst að hún bar til hans ríkt traust enda heimili hennar. Ekkert hafi átt að gefa honum til kynna að hún hefði kynferðislegan áhuga á honum.

Eitt leiddi af öðru

Sannað sé því að maðurinn misnotaði sér andlega fötlun ungu konunnar og beitt hana ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni og traust hennar til hans til að ná fram kynferðislegum samskiptum við hana í þrjú skipti líkt og fram kemur í dómi Héraðsdóms Austurlands frá því í desember 2017.

Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa í þrjú aðgreind skipti átt kynferðisleg samskipti við ungu konuna á árunum 2013 til 2014, í öll skiptin í sjónvarpsherbergi á þáverandi heimili hans. Lýsti hann aðdraganda fyrsta skiptisins á áþekkan hátt og hún, með því að hann hefði aðstoðað hana við að dusta kexmylsnu af bringu hennar. Eitt hafi leitt af öðru en maðurinn fullyrti að hún hafi sjálf lyft upp bol og brjóstahaldara og viljað þetta. Tók hann fram að hann hafi verið á lyfjum á þessum tíma og það gæti verið að þau hafi aukið kynlöngun hans. Hann hafi ekki áttað sig á þessum aukaverkunum fyrr en eftir að hann hætti á lyfjunum.

Báru ábyrgð á velferð hennar 

Á þessum tíma var hann og þáverandi eiginkona hans nýlega hætt sem stuðningsfjölskylda ungu konunnar þar sem hún var komin af barnsaldri. Félagsþjónustan í viðkomandi sveitarfélagi hafði gert úttekt á heimilinu og gert samkomulag um að hjónin myndu  bera ábyrgð á umönnun hennar og velferð í hvívetna á meðan dvölin varði. Fengu þau greitt fyrir með sérstökum samningi þar um, fyrir að vera henni til stuðnings, veita henni hvatningu, leiðsögn og öryggi þá daga sem hún dvelji á heimili þeirra, segir meðal annars í dómi Héraðsdóms Austurlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert