Ekkert því til fyrirstöðu að klífa Heklu

Enn er snjór í Heklu.
Enn er snjór í Heklu. Ljósmynd/Heklusetrið

Göngugarpar klifra upp um öll fjöll og firnindi á þessum árstíma enda fátt sem auðgar andann meira en fjallaloft á íslensku sumri. Hekla, drottning íslenskra eldfjalla, verður gjarnan fyrir valinu en eldfjallið getur gosið hvenær sem er með stuttum fyrirvara.

Anders Hansen á Leirubakka í Landsveit á Suðurlandi fær daglega fyrirspurnir frá útlendingum um leiðir upp á Heklu sem hyggjast ýmist ganga alla leið á toppinn eða hluta leiðarinnar. „Við bendum fólki alltaf á viðvaranir almannavarna um að fjallið geti gosið hvenær sem er, en það hefur hingað til ekki hrætt neinn frá. Það virkar jafnvel bara meira spennandi.“

Hann bendir á að það styttist í að það verði 20 ár frá síðasta gosi sem var í febrúar 2000. „Fólk er greinilega hætt að reikna með gosi núna og þess vegna mun göngufólki á og umhverfis Heklu bara fjölga tel ég, með tilheyrandi hættu ef eitthvað gerist með stuttum fyrirvara eins og það mun gera á endanum, hvenær sem það verður,“ segir hann. 

Vísindamenn fylgjast náið með Heklu

„Það er rólegt eins og er og ekkert því til fyrirstöðu,“ segir Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, spurð hvort óhætt sé að leggja á fjallið. Hún bætir við í léttum tón „við höfum ekkert leyfi til að banna einum eða neinum að fara eitt eða neitt.“ 

Vísindamenn fylgjast náið með öllum jarðhræringum í fjallinu. „Það er ekkert sem við sjáum í okkar gögnum sem bendir til þess. Við fylgjumst mjög vel með því og myndum láta vita ef við héldum að það væri eitthvað í gangi,“ segir hún spurð hvort eldgos sé á næsta leiti.

Göngugarpar vilja margir klífa Heklu sem er gjarnan kölluð drottning …
Göngugarpar vilja margir klífa Heklu sem er gjarnan kölluð drottning íslenskra eldfjalla. Ljósmynd/Heklusetrið

Margir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig áður en þeir halda á fjallið því þeir vilja síður flýja fótgangandi fljúgandi rauðglóandi hraunslettur. Þeir hafa sett sig í samband við Veðurstofuna og rætt við sérfræðinga landsins um stöðuna. Í morgun hringdu tveir slíkir í Sigþrúði sem upplýsti þá um stöðu mála.

Sigþrúður er ánægð með slík símtöl og segir kollega sína einnig svara þeim með glöðu geði. Ætla má að náttúruvársérfræðingum sem eru heillaðir af jarðhræringum leiðist seint að deila vitneskju sinni með fróðleiksfúsu fólki.  

Hún tekur fram að það sé alltaf gott að vita af göngufólki sem er á svæðinu. Þá er hægt að grípa inn í og koma upplýsingum til þeirra sem fyrst ef eitthvað gerist. Í slíkum tilfellum er fyrst haft samband við almannavarnir sem koma svo skilaboðum til fólks á svæðinu.

„Frekar rólegt í jörðinni“

Hins vegar eru 19 ár frá því Hekla gaus síðast sem var í febrúar árið 2000. Margir telja því kominn tíma á hana. „Hún hefur gosið á 10 ára tímabili um tíma en hér áður fyrr leið lengra á milli,“ segir Sigþrúður og ítrekar að ekki sé hægt að reikna náttúruna út að þessu leyti og því óvíst hvenær hún lætur næst á sér kræla.  

Spurð hvernig staðan sé annars staðar á landinu segir hún vera „frekar rólegt í jörðinni eins og er. Engar hrinur eru eins og koma reglulega en við getum gengið að þeim sem vísum,“ segir hún. 

Horft til Heklu frá Heklusetrinu á Leirubakka í Landsveit í …
Horft til Heklu frá Heklusetrinu á Leirubakka í Landsveit í dag. Ljósmynd/Heklusetrið
mbl.is

Bloggað um fréttina