Munu áfram ræða orkupakkann

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir þingmenn flokksisn halda áfram …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir þingmenn flokksisn halda áfram að ræða orkupakkan ef málið verður á dagskrá þingsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn Miðflokksins munu halda áfram að ræða þriðja orkupakka Evrópusambandsins með svipuðu sniði og til þessa verði málinu ekki frestað til haustsins, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is.

„Ef málið kemur aftur á dagskrá erum við búin að nýta tímann til þess að afla fleiri gagna og það er eitt og annað sem menn munu vilja bæta inn í umræðuna,“ segir Sigmundur.

Spurður hvort þetta þýði að umræða um málið sé ekki lokið af hálfu Miðflokksins svarar hann: „Nei.“

Formenn flokka á Alþingi funduðu í dag um þinglok. Er blaðamaður spyr hvort það hafi verið reynt að leysa úr þeim ágreiningi sem er á Alþingi vegna orkupakkans á fundinum segir formaðurinn: „Nei, ekkert sem heitið getur.“

„Við höfum náttúrulega lagt til mjög ítrekað að málið fari aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og þar fáist varanlegar undanþágur í samræmi við málflutning stjórnarmeirihlutans um að þetta varði ekki Ísland,“ útskýrir Sigmundur.

„Það hefur ekki verið tekið undir það og þá höfum við bent á það að bíða með málið fram á haustið eins og reyndar iðnaðarráðherra var búin að opna á á sínum tíma. Með því gefst tækifæri til þess að fá betri upplýsingar um þetta og til að mynda er að vænt niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins hvort þetta standist stjórnarskrá Noregs. Þannig að þar gefst tækifæri til þess að bíða eftir því.“

Engu nær með dagskrána

„Það má segja að fundur þingflokksformanna um þinglok sem var haldinn í fyrradag hafi fyrst og fremst verið það sem mætti kalla flokkunarvinna. Menn voru að fara yfir lista þeirra mála sem bíða afgreiðslu og raða þeim upp án þess þó að það sé komið það langt að það sé farið að semja um hvaða mál megi bíða og að það séu gerðar breytingar á öðrum,“ segir formaður Miðflokksins um dagskrá Alþingis.

„Það er hefðbundið í lok þings að ríkisstjórn byrjar með allan listann sinn og byrjar að forgangsraða, en mér heyrist að við séum ekki komin á þann stað að ræða hvaða mál megi bíða. […] vonandi verður það á morgun því að við erum komin fram yfir starfsáætlun Alþingis og á þeim tímapunkti eru menn yfirleitt komnir lengur í þessum viðræðum heldur en núna,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert