Skiptinámið til Spánar skipti sköpum

Dúx skólans var Guðmundur Freyr Gylfason, stúdent af náttúruvísindabraut með …
Dúx skólans var Guðmundur Freyr Gylfason, stúdent af náttúruvísindabraut með einkunnina 9,49. Ljósmynd/Jóhannes Long

„Eftir að fyrsta tían kom í hús þá var ég búinn að setja ákveðinn „standard“, ég vildi halda áfram á þessari braut,“ segir Guðmundur Freyr Gylfason, dúx af náttúruvísindabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti með einkunnina 9,49.

Hann gerði sér lítið fyrir og sópaði að sér flestum verðlaunum við útskriftina. Hann fékk verðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum, stærðfræði og spænsku og einnig menntaverðlaun Háskóla Íslands.

Guðmundur segir sjálfstraustið skipta gríðarlega miklu máli í náminu. Hann upplifði það á eigin skinni þegar hann fékk fyrstu tíuna í stærðfræði. Þess má geta að hann var enn í grunnskóla þegar hann tók stærðfræðiáfanga á framhaldsskólastigi og fékk 10 í einkunn. Tían hleypti honum kapp í kinn sem hefur dugað honum út námið.

Áhuginn, aginn og metnaðurinn er sjálfsprottinn hjá Guðmundi þó að hann hafi fengið hvatningu að heiman. Hann segir föður sinn alltaf hafa lagt ríka áherslu á heimalærdóm í grunnskóla og segist búa vel að því. Það kom foreldrum hans á óvart að hann væri dúx skólans en viðurkennir að hann hafi sýnt föður sínum eina og eina einkunn í náminu og þau hafa því vafalaust séð í hvaða átt þetta stefndi.  

„Það hefur líka hjálað mér mjög mikið að lesa bækur yfirhöfuð, skáldsögur, ævisögur og heimspeki. Það hefur fengið mig til að horfa á hlutina öðruvísi,“ segir Guðmundur. Fjölmargir höfundar eru í uppáhaldi og nefnir hann meðal annars Walter Isaacson og Ryan Holiday, en auk þess hefur hann verið duglegur að lesa hin ýmsu klassísku verk sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út.

Þurfti að hafa fyrir hlutunum á Spáni

Guðmundur segist búa vel að því að hafa farið í skiptinám til Spánar veturinn 2017-2018. Hann varð reynslunni ríkari af að hleypa heimdraganum, kynnast nýrri menningu og ekki síður að þurfa að leggja talsvert á sig í náminu við að læra nýja hluti. „Það var mjög erfitt að læra allt á spænsku. Það styrkti mig að fara út og hafa þurft að hafa fyrir hlutunum,“ segir hann.

Eftir heimkomuna varð námið auðveldara og hann var fljótur að merkja mun á því að ef hann lagði ríkulega á sig í náminu uppskar hann eftir því. „Það var gott að koma aftur heim í þægindahringinn. Reynslunni ríkari.“

Þrátt fyrir að Guðmundur hafi verið í námi í spænskum framhaldsskóla ákvað hann að fá engar af þeim einingum metnar sem hann lauk við í skólanum. Ástæðan er sú að einkunnirnar voru ekki nógu háar, í það minnsta ekki eins háar og Guðmundur vildi.

„Stundum allt of mikill fullkomnunarsinni“

Guðmundur viðurkennir að hann hafi lagt talsvert á sig til að ná þessum einkunnum. Hann hafi oftar kosið að læra undir próf en að hanga með vinum en kveðst þó hafa gefið sér tíma til að sinna fjölskyldu og vinum. „Ég er stundum allt of mikill fullkomnunarsinni,“ segir hann.

Í haust hyggst hann nema stærðfræði við Háskóla Íslands. Hann stefnir á að komast út í skiptinám eftir eitt ár í námi en hann hefur ekki enn ákveðið hvaða land verði fyrir valinu. Líklega verður það þó eitthvert enskumælandi land. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert