Vonir sem virðast bresta

Fækkun flugferða til landsins hefur víða áhrif.
Fækkun flugferða til landsins hefur víða áhrif. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru alvarleg tíðindi. Þetta mun koma illa við alla. Þær vonir sem menn höfðu virðast vera að bresta. Þetta mun auka vandann hjá okkur,“ segir Kristófer Oliversson, formaður FHG - Fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu, um ákvörðun flugfélagsins Delta Air Lines að hætta að fljúga til Íslands yfir veturinn og fækkun ferða breska flug­fé­lagsins ea­syJet á sama tíma.

Kristófer bendir á að vonir hafi verið bundnar við að flugfélög myndu bæta við flugferðum í haust sem kæmu inn í staðinn fyrir þær flugleiðir sem WOW air skildi eftir sig þegar það fór í þrot. Í stað þess að bæta við er dregið úr flugi. Samkeppnin er minni eftir að WOW air hvarf af markaði og væntanlega mun það hækka verð.

Frá áramótum hafa verið ýmis teikn á lofti varðandi framtíð ferðaþjónustunnar hér á landi og mögulegt bakslag. Í síðustu spá Isavia sem var gefin út í janúar var aukning í árstíðarsveiflu. „Markmið hjá okkur númer eitt, tvö og þrjú hefur verið að minnka árstíðarsveifluna í ferðaþjónustunni og að fá betri dreifingu ferðmanna um landið. Þetta var ákveðið bakslag,” útskýrir Kristófer.

Síðasta spá Isavaia var gefin út áður en flugfélagið WOW air var tekið til gjaldþrotaskipta. Kristófer segist bíða óþreyjufullur eftir nýrri spá Isavia því forsendur þeirra til að spá fyrir um þróunina eru nokkuð góðar, að hans sögn.

„Sjaldan er ein báran stök“

„Við höfum áhyggjur af sumrinu og líka vetrinum. Við erum að taka stöðuna í ljósi aðstæðna,” segir hann. Í því samhengi vísar hann til spár Samtaka ferðaþjónustunnar sem gera ráð fyrir um 10-14% samdrætti í ferðaþjónustunni, að því sögðu væntir hann að samdráttar næsta vetur.

Kristófer Oliversson er formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG). Ljósmynd/Aðsend

„Sjaldan er ein báran stök. Atburðirnir undanfarið eru eins og snjóboltaáhrif. Ég segi ekki að þetta sé alveg eins og í hruninu og gosinu í Eyjafjallajökli sem kom ofan í það,“ segir hann og bendir á að hótelin hafi þurft að taka á sig nokkur högg undanfarið. Hann vísar til þreföldunar á gistináttaskatti sl. haust, falls WOW air, kyrrsetningar Icelandair á Max-vélum sínum og í kjölfarið þurfti félagið að fella niður ferðir, verkföll starfsfólks í hótel- og gistiþjónustu snemma í vor og nú fækkun flugferða þessara tveggja flugfélaga til landsins.

Vill að ríkið herði eftirlit með „skuggahagkerfinu“

Kristófer kallar eftir aðgerðum stjórnvalda og borgarinnar til að minnka höggið sem er fyrirséð að ferðaþjónustan standi frammi fyrir. Hann bendir á að leiðir til „að létta róðurinn“ séu fjölmargar. Hægt væri t.d. að efla markaðssetningu fyrir næsta vetur þ.e.a.s. að Íslandsstofa fari í markaðsátak, fella niður gistináttagjöld, lækka fasteignaskatt og herða eftirlit með „skuggahagkerfinu“ og vísar hann til Airbnb, íbúða- og sumarhúsaleigu til ferðamanna.

„Ríkið getur einnig hert enn frekar eftirlit með „skuggahagkerfinu“. Það er dapurlegt í þessari stöðu að búa við að helmingur framboða á herbergjum í miðborginni er í skuggahagkerfinu. Airbnb og sambærileg útleiga er undanþegin virðisaukaskatti og gistináttaskatti og þarf engin leyfi. Í þessari stöðu hljótum við að kalla eftir verulega miklu átaki í þeim efnum,” segir hann.

Ferðamenn við Gullfoss. mbl.is/Árni Sæberg

Spurður hvort hótelin séu hreinlega ekki orðin of mörg vísar hann því á bug. Hann áréttar að þeir sem leigja út eignir sínar á Airbnb verði að fara eftir reglum. Þeir mega leigja út eignir sínar í 90 daga á ári. Kristó­fer hvet­ur yf­ir­völd til að ganga úr skugga um að regl­un­um sé fram­fylgt og telur raunar að 30 dagar séu eðlilegri undanþágutími fyrir heimagistingu.

„Meðvirknin gagnvart leyfislausri gistingu er ótrúleg“

Í þessu samhengi bendir hann á að fram hafi komið í nýlegri rannsókn, sem kynnt var á vegum Ferðamálastofu, að um 70-80% íbúða í sumum götum í miðborg Reykjavíkur sé búið að breyta í gistihúsnæði undir merkjum Airbnb b. „Það er stóri vandinn. Þetta er svipað og að sjómenn myndu landa helmingi aflans fram hjá kvótanum án þess að nokkur gerði athugasemdir. Við myndum aldrei líða það en meðvirknin gagnvart leyfislausri gistingu er ótrúleg,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina