Bensínstríð á höfuðborgarsvæðinu

AFP

Bensínstríð er skollið á á höfuðborgarsvæðinu en Atlantsolía lækkaði í morgun eldsneytisverð sitt á Sprengisandi til samræmis við verðið við Kaplakrika, sem hefur lengi verið lægsta verð fyrirtækisins, en sú stöð er mjög nálægt bensínstöð Costco.

Þannig er lítraverðið á bensíni nú 211,40 krónur á Sprengisandi eins og við Kaplakrika. Í kjölfarið lækkaði Orkan bensínverðið hjá sér við Dalveg og Reykjavíkurveg í 211,30. Dælan brást þá við og lækkaði verðið á öllum sínum stöðvum í 211,20 krónur, en um er að ræða stöðvar fyrirtækisins við Holtagarða, Stekkjarbakka/Mjódd, Fellsmúla, Hæðarsmára og Salaveg.

Er lægsta verðið á höfuðborgarsvæðinu nú að finna á þeim stöðvum samkvæmt bensinverd.is.

Uppfært: ÓB hefur einnig lækkað verð á eldsneyti á þremur stöðvum sínum; við Fjarðarkaup í Hafnarfirði og við Bæjarlind og Arnarsmára í Kópavogi. Verð á bensíni er þá 211,4 krónur og verð á disil 202 krónur. Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands, segir í tilkynningu að með þessu svari þeir samkeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert