Guðjón Valur gaf 200 kíló af fötum

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, gaf Fjölskylduhjálp Íslands rausnarlega gjöf á dögunum. Í henni voru um 200 kíló af gæða íþróttafatnaði og þar af um 50 pör af íþróttaskóm. Gjöfinni verður deilt út á morgun til efnalítilla fjölskyldna samkvæmt fyrirmælum fyrirliðans.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir þetta vera einstakt tilfelli og sérstaklega ánægjulegt þar sem kostnaður við íþróttaðkun getur verið talsverður. 

Í myndskeiðinu er kíkt á gjöf Guðjóns Vals og rætt við Ásgerði Jónu.

Guðjón Valur hefur lengi verið með samninga við stóra íþróttavöruframleiðendur, fyrst Adidas og nú Mizuno. Yfir langan feril hefur því mikið magn íþróttafatnaðar safnast saman, bæði frá stuðningsaðilum hans sem og þeim félagsliðum sem hann hefur spilað fyrir.

Guðjón Valur flytur í sumar frá Þýskalandi til Parísar og því fannst honum gráupplagt að gefa þau föt sem hann hefur ekki not fyrir til góðs málefnis. Fyrir valinu varð Fjölskylduhjálp Íslands því honum var umhugað að fatnaðurinn færi til ungs fólks.

Í tilkynningu er haft eftir Guðjóni Val að aðrir hafi meiri not fyrir allan varninginn sem að mestu leyti er ónotaður.

„Satt best að segja hafði ég ekki gert mér grein fyrir magninu fyrr en ég fór að taka til fyrir flutningana til Parísar annars hefði ég sennilega verið löngu búinn að gefa þetta til góðs málefnis,“ sagði Guðjón Valur.

Gjöfinni verður dreift til þeirra sem á þurfa að halda á milli kl.14 og 17 á þriðjudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert