Hinu opinbera vex fiskur um hrygg

Á hvern einn sem starfar í einkageiranum eru 1,21 sem ...
Á hvern einn sem starfar í einkageiranum eru 1,21 sem gera það ekki, eru ýmist opinberir starfsmenn, utan vinnumarkaðar eða atvinnulausir. mbl.is/Hari

Í fyrsta sinn frá 2009 hækkar hlutfall opinberra starfsmanna á vinnumarkaði á milli ára. Starfsmönnum í stjórnsýslu og velferðarkerfinu fjölgaði úr 38.000 í 39.000 árið 2018, á meðan þeim fjölgaði allt í allt um 3.400 í einkageiranum.

Hlutfallslega er um að ræða meiri fjölgun á opinberum stöðugildum en stöðugildum í einkageira. Hjá hinu opinbera fjölgaði þeim um 2,6% á meðan þeim fjölgaði um 2,2% í einkageiranum. 

Þetta er tölfræði frá Viðskiptaráði.

Nýr stuðningsstuðull Viðskiptaráðs er 1,21 á móti einum. Það þýðir að fyrir hvern starfsmann í einkarekstri er að finna 1,21 sem er ekki í einkarekstri. Sá kann að vera í opinberu starfi, utan vinnumarkaðar eða atvinnulaus.

Árið 2009 var sami stuðull 1,44 á móti einum. Þeim fækkaði síðan ár hvert þeim sem ekki unnu í einkageiranum alveg fram til 2017 en þá fór þeim að fjölga aftur. 2016 voru þeir í sögulegu lágmarki þeir sem ekki unnu í einkageiranum, 1,19. Stuðullinn hækkaði árið 2017 og nú aftur 2018.

Starfsmenn í einkageiranum á Íslandi árið 2018 voru 159.400, samkvæmt tölum frá Viðskiptaráði. 148.700 eru utan vinnumarkaðar af öðrum ástæðum en atvinnuleysi, mest börn eða aldraðir. Atvinnulausir eru 5.600.

Í tilkynningu Viðskiptaráðs segir að áhyggjuefni sé að stuðullinn milli einkageirans og hins opinbera hækki stöðugt. „Ef stuðningsstuðullinn hækkar áfram þýðir það að minna er til skiptanna milli landsmanna að öllu öðru óbreyttu. Í ljósi framangreinds telur Viðskiptaráð mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að halda stuðlinum lágum og skapa einkageiranum sem best rekstrarskilyrði til að tryggja hagsæld landsmanna.“

mbl.is