Segir ríkið eiga næsta leik

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Golli

Ábyrgðin á þeirri stöðu sem er komin upp eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í dag er ríkisins og það er þeirra að koma með leið til að greiða úr málinu. Þetta segir athafnarmaðurinn Ólafur Ólafsson, sem er einn hinna fjögurra sem dæmdur var í Al Thani-málinu. Fyrr í dag komst MDE að þeirri niðurstöðu að einn Hæstaréttardómara sem dæmdi í málinu hefði ekki verið hlutlaus vegna fjölskyldutengsla hans, en eiginkona dómarans var varaformaður stjórnar FME þegar eftirlitið rannsakaði Kaupþing og þá var sonur hans aðallögfræðingur Kaupþings og síðar starfsmaður slitabús bankans.

Ólafur segir í samtali við mbl.is að það geti ekki verið hlutverk borgara að standa í því að stefna ríkinu til endurupptöku þegar ljóst sé að brotið hafi verið á mannréttindum fólks og það staðfest af MDE. Segir hann það hlutverk dómsmálaráðherra og forsætisráðherra að tryggja lýðræðisleg réttindi borgara og þeir verði að finna út hvað eigi nú að gera. „Þeir bera ábyrgðina á málinu,“ segir hann.

„Þeir væru að dæma eigin störf“

Málið hefur farið fyrir héraðsdóm og Hæstarétt, en síðar var farið fram á endurupptöku málsins. Var það vegna fyrrnefndra fjölskyldutengsla, auk þess sem fjórmenningarnir töldu að brotið hefði verið gegn réttindum þeirra varðandi aðgang að gögnum málsins, hlerunum á símtölum við verjendur og að ekki hafi verið fullreynt að fá sjeik al Thani til að bera vitni við dómshaldið. Endurupptökunni var hafnaði og kærðu þeir málið til MDE. Dómstóllinn tók hins vegar ekki undir þessar aðfinnslur.

Spurður hvort hann teldi rétt ef endurupptökunefnd myndi fallast á endurupptöku málsins eftir dóm MDE segir Ólafur að núna sé sannarlega búið að dæma dómstólin brotlegan. Hins vegar segist hann ekki treysta Hæstarétti lengur til að dæma í málum sér tengdum. Segir hann flesta dómarana sem dæmdu fyrr í málinu sitja áfram, utan Árna Kolbeinssonar, sem var sagður hafa skort hlutleysi og Gunnlaugs Claessen, sem kom aftur til starfa tímabundið eftir að hafa verið kominn á eftirlaun. „Þeir væru að dæma eigin störf,“ segir Ólafur og bætir við að þegar ekki sé hægt að bera traust til einstaklinga sem eigi að vera hlutlausir og faglegir þá velti hann alvarlega fyrir sér hvað sé hægt að gera.

Treystir ekki íslenskum dómstólum

„Ég hef alltaf talið að ég fengi ekki réttláta málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum. Hef alltaf talið að það þyrfti að dæma mál mitt fyrir erlendum dómstólum,“ segir hann. MDE tekur aðeins á málsmeðferðinni en ekki efnisatriðum málsins. „Það eru hin alvarlegu mál,“ segir hann, en Ólafur telur að sér hafi verið blandað saman við annan mann í dómi Hæstaréttar.

Ólafur segir ekkert að lögunum, en að dómarnir séu mannanna verk sem séu gölluð. „Það er enginn ágreiningur um lögin, heldur um efnistök réttarins á viðfangsefninu og hverja hann setur í að dæma,“ segir hann. Vísar hann til dóms Hæstaréttar í málinu, en þar endurskrifaði Hæstiréttur dóminn, en fjallaði ekki um fyrri dóm héraðsdóms. Segir hann það gróft brot á mannréttindum að sakborningar hafi ekki getað varið sig gagnvart því að nýr dómur sé skrifaður.

Spurður hvort hann muni óska eftir endurupptöku málsins sjálfur ef ekkert komi frá ríkisvaldinu segir Ólafur að hann muni nú fyrst bíða og sjá hvað ríkið ætli að gera.

mbl.is