Telja hjúkrunarrými ekki fjármögnuð

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu segja mikið frávik milli fjölgun hjúkrunarrýma …
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu segja mikið frávik milli fjölgun hjúkrunarrýma og því fjármagni sem er ætlað til reksturs þeirra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa áhyggjur af því að í nýrri fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020 til 2024 er gert ráð fyrir að fjölga hjúkrunarrýmum um 26,4%, en aðeins er ætlað að auka framlög um 7,05% til þess að tryggja rekstur þeirra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu samtakanna.

Virðist því sem ekki sé tryggður rekstrargrundvöllur hjúkrunar- og dagdvalarrýma sem þegar eru í rekstri. Jafnframt eigi það við „fyrirhuguð ný hjúkrunar- og dagdvalarrými sem ríkisstjórnin hefur boðað að verði tekin í notkun á næstu misserum,“ að mati samtakanna.

Samtökin segjast ítrekað hafa bent á að nauðsynlegt sé að styrkja rekstur hjúkrunar-, dvalar-, dagdvalar- og endurhæfingarrýma. Hvetja samtökin „þingmenn til að samþykkja ekki nýja fjármálaáætlun nema að við það verði staðið.“

Rýmin ekki í rekstri

Fram kemur í tilkynningunni að áætluð fjölgun rýma um 920 sé villandi þar sem hluti þeirra rýma verði til við skipulagsbreytingar og að boðað hafi verið að fjöldi hjúkrunarrýma fari úr 2.716 í 3.433 árið 2024. „Er því um að ræða 717 ný hjúkrunarrými, eða 26,4% fjölgun frá því sem var á síðasta ári.“

Jafnframt sé aðeins ætlað að auka framlög um 7,05% til þess að tryggja rekstur rýmanna þrátt fyrir að fjölgun þeirra sé mun umfangsmeiri.

„Á þá einnig alveg eftir að taka tillit til þess að á þessum sama tíma er ætlunin að fjölga dagdvalarrýmum um 95, úr 775 í 870, sem væntanlega á líka að rúmast innan fjárheimilda málefnasviðsins,“ segir í tilkynningunni.

Ófjármögnuð eða óraunhæf markmið

Ógagnsæi í framsetningu upplýsinga og talna í fjármálaáætluninni takmarkar getu til þess að staðhæfa „um það hvernig stendur á þessum mismun á rýmafjölgun og aukningu á rekstrarfé,“ að mati samtakanna.

Auk þess sem ekki sé „hægt að álykta annað en að markmiðin sem stjórnvöld eru að setja fram í fjármálaáætluninni séu ekki fjármögnuð í þessari sömu áætlun.“

Þá segir að tafir hafa orðið á byggingu nýrra hjúkrunarrýma og á því að taka ný rými í notkun og að það gæti mögulega skýrt frávikið.

„Ef slík frávik skýra svo viðamikinn mun á fjármögnun og markmiðssetningu í áætluninni er ljóst að það þarf að endurskoða hlutina og aðlaga markmiðasetningu málefnasviðsins að breyttum aðstæðum. Engum er greiði gerður með því að halda á lofti ófjármögnuðum eða óraunhæfum markmiðum í fjármálaætlun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert