„Það gengur illa að halda þeim í leigu“

Þorgeir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri AVIS bílaleigunnar, og Hendrik Berndsen, stjórnarformaður Hertz. ...
Þorgeir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri AVIS bílaleigunnar, og Hendrik Berndsen, stjórnarformaður Hertz. Báðir í Samtökum atvinnurekenda í ferðaþjónustu. mbl.is/Snorri

Það þarf nokkuð mikið að gerast til þess að íslenskar bílaleigur geti skipt út bensínbílum fyrir rafbíla, að mati tveggja manna í bílaleigubransanum sem mbl.is tók tali í dag. Fyrsta skrefið er þó stigið.

Styrkir sem fyrirtæki og gistihús eiga að geta sótt upp frá þessu til að byggja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla um land allt eiga, að sögn ráðherranna sem kynntu aðgerðirnar í dag, að vera til þess fallnir að hvetja bílaleigur til þess að kaupa inn fleiri rafbíla. Bílaleigunum væri rótt að senda ferðamenn af stað á rafbílum ef innviðirnir til þess væru fyrir hendi.

Það er mikilvægt þegar kemur að því að rafbílavæða bílaflotann hérlendis að skapa þessar aðstæður fyrir bílaleigurnar, þar sem helmingur allrar endurnýjunar á bílaflotanum fer fram þar. Það eru bílar, sem eru svo seldir út af bílaleigunum nokkrum árum síðar. Á meðan þetta eru að uppistöðu bensínbílar er erfitt ná fram raunverulegum breytingum á flotanum, að sögn ráðherranna.

Hjá bílaleigunni AVIS eru innan við 20 rafbílar í flotanum. Hjá Hertz eru þeir sömuleiðis örfáir. Þróunin er því komin skammt á veg í þeim herbúðum á meðan hlutfall rafmagnsbíla af nýskráðum heimilisbílum er 20%.

„Það gengur illa að halda þeim í leigu. Það virðist vera lítill áhugi fyrir þessum bílum í skammtímaleigu,“ segir Þorsteinn Þorgeirsson framkvæmdastjóri AVIS.

Undir það tekur Hendrik Berndsen, stjórnarformaður Hertz.

Verður að byrja á Keflavík

Aðgerðirnar sem kynntar voru í dag gera ráð fyrir því að fjölfarnir staðir á landsbyggðinni geti sótt um styrk til þess að byggja hraðhleðslustöðvar. Þorsteinn segir að ekkert geti gerst í þessum málum fyrr en málum verði kippt í lag í Keflavík, þar sem flestir bílaleigubílar séu leigðir út. „Við tökum þessum aðgerðum fagnandi en það er langt í land. Þetta er lítið skref. Það sem við hefðum viljað sjá meira í þessu samtali er uppbygging í Keflavík, þar sem flestir eru að koma inn,“ segir Þorsteinn.

Til þess að hægt væri að taka með vissu einhvern fjölda af rafbílum inn í flotann, þyrfti að mati Þorsteins að vera hægt að koma um 2500 hlöðnum bílum út úr Keflavík á sólarhring. Þegar þeim er skilað þangað kæmu þeir ekki fullir af rafmagni inn, þannig að það þyrfti að vera hægt að hlaða að minnsta kosti helminginn af þeim bílum á sólarhring.

Ekki viðunandi að bíða í 3-4 tíma

„Ég tek undir með Þorsteini að það er vandi að ekki sé hægt að tengja einn einasta bíl í Keflavík,“ segir Hendrik Berndsen stjórnarformaður Hertz.

„Það sem skiptir mestu máli til þess að bílaleigurnar fái fleiri rafmagnsbíla er að framleiðslan á þeim aukist hjá framleiðendum bílanna,“ segir Hendrik. „Hingað til hafa verið að koma örfá eintök af þessum tegundum sem ná þessari 300-400 kílómetra drægni sem bílarnir verða að hafa hér á landi,“ segir Hendrik.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra boðaði að styrkir væru frá og ...
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra boðaði að styrkir væru frá og með deginum í dag fáanlegir til þess að byggja upp hraðhleðslustöðvar á landsbyggðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar það er komið, þurfa innviðirnir sömuleiðis að geta hlaðið á viðunandi hraða. Ekki gangi að fólk þurfi að bíða í 3-4 klukkutíma eftir hleðslu, heldur þarf hleðslustöðvar sem ná að hlaða bíla um nokkra vegalengd á 15-30 mínútum, að sögn Hendriks.

Hendrik segir þá að því hafi verið um sumt verið ábótavant að stjórnvöld hefðu samráð við fagaðila í greininni áður en ráðist var í aðgerðir. Engu síður fagnar hann viðleitninni og er vongóður fyrir frekara samstarfi.

Íslenskar aðstæður erfiðar

Samkvæmt því sem kom fram á blaðamannafundi í dag er unnt að komast í kringum landið á rafmagnsbíl ef drægnin er 3-400 kílómetrar. Ýmislegt getur þó komið upp á sem er erfitt að leysa úr. Því þurfi einfaldlega fleiri stöðvar, eins og áætlað er.

Aðstæður á Íslandi eru að sögn Hendriks um margt erfiðar fyrir rafmagnsbíla. „Það gengur erfiðlega út af drægninni að vera með þetta í leigu. Við ákváðum til dæmis að vera meira með blendinga í ár, sem nota bæði rafmagn og eldsneyti, og tókum inn nokkra tugi þannig bíla. Þá kemur það upp að í þeim eru engin varadekk og þá er kúnninn ekki sáttur þegar springur á bílnum,“ segir Hendrik.

Á sama hátt sé veðurfar oft þess valdandi að drægni rafmagnsbíla er skemmri en skyldi. „Við höfum hér vetur, snjó, vind, við höfum ýmsar uppákomur sem gera okkur erfiðara fyrir en öðrum löndum,“ segir Hendrik.

mbl.is

Bloggað um fréttina