„Þetta á ekki að geta gerst“

Timburhlassið slengdist utan í tvo bíla og braut afturrúðu annars …
Timburhlassið slengdist utan í tvo bíla og braut afturrúðu annars þeirra áður en það skall á húsi Stefáns. Ljósmynd/Steinþór Þorsteinsson

Óhapp varð við framkvæmdir á svokölluðum Héðinsreit í Vesturbæ Reykjavíkur síðdegis í gær, en þá fauk byggingarkrani til með þeim afleiðingum að timburhlass skall á tveimur bílum og húsi við Vesturgötu og olli nokkrum skemmdum. Gangandi vegfarandi þurfti að hlaupa undan til að forða sér frá líkamstjóni.

Þeir Steinþór Þorsteinsson og Stefán B. Árnason, íbúar nærri framkvæmdasvæðinu, hafa áhyggjur af öryggi við framkvæmdina eftir atvikið og segja í samtali við mbl.is að íbúar nærri uppbyggingarsvæðinu hafi raunar haft nokkrar áhyggjur af frágangi verktaka á svæðinu um nokkurt skeið, ekki síst í ljósi þess að einungis nokkur hundruð metra frá staðnum er leikskóli.

Steinþór segir að verr hefði getað farið ef að fleira fólk hefði verið á ferli um svæðið er óhappið átti sér stað, á milli klukkan 16 og 17 í gær. 

Ljósmynd/Steinþór Þorsteinsson

Börnunum brá við höggið

Stefán býr í húsinu sem varð fyrir skemmdum í óhappinu. Tvö börn hans voru heima er óhappið varð og hringdi sonur hans í hann óðamála og sagðist honum að hann yrði að koma heim því að það hefði eitthvað dottið á húsið. Þeim dauðbrá við skellinn er timbrið lenti á húsinu.

Að sögn Stefáns kom lögregla á staðinn og sagðist ætla að gera skýrslu sem verði svo komið áfram á Vinnueftirlitið. Hann sjálfur þarf að láta tryggingafélagið sitt meta tjónið á húsinu, en um er að ræða um það bil hundrað ára gamalt bárujárnsklætt steinhús. Beygla er í bárunni og mögulega einhverjar skemmdir á múrverkinu.

Hlassið skall á gömlu húsi við Vesturgötu og skorðaðist þar …
Hlassið skall á gömlu húsi við Vesturgötu og skorðaðist þar af eftir að hafa haft viðkomu á tveimur bílum. Ljósmynd/Steinþór Þorsteinsson

„Það er eitthvað sem klikkar. Þetta á ekki að geta gerst,“ segir Stefán í samtali við blaðamann og bætir því við að allur frágangur á athafnasvæði verktakanna hafi verið með sleifarlagi. Hann segir að framkvæmdasvæðið hafi áður verið opið svæði, en ætti að hans mati að vera afgirt nú þegar framkvæmdir séu hafnar þar.

Þá segir hann kranann sem notast er við vera „kolryðgaðan“, þrátt fyrir að hann sé með nýlega skoðun frá Vinnueftirlitinu, og að atvikið sem varð í gær hafi ekki orðið til þess að bæta upplifun íbúa af þeim framkvæmdum sem þarna eru í gangi.

Ljósmynd/Steinþór Þorsteinsson
mbl.is