„Verulega óklókt“ hjá stjórnarliðum

Hanna Katrín Friðriksson á Alþingi.
Hanna Katrín Friðriksson á Alþingi. mbl.is/Eggert

Hanna Katrín Friðriksson og Þorsteinn Víglundsson, þingmenn Viðreisnar, gagnrýndu stjórnarliða fyrir að saka minnihlutann um að stunda málþóf í umræðunni um fjármálaáætlun í gær. Lýstu þau einnig yfir furðu sinni á því að enginn stjórnarliði hafi tekið þátt í umræðunni fyrir utan framsögumann.

Undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi vakti Hanna Katrín athygli á því að einstaka stjórnarliðar, þar með talið tveir ráðherrar, hafi tengt nokkurra klukkustunda umræðu um fjármálaáætlun við málþóf Miðflokksins í tengslum við þriðja orkupakkann. Hún sagði þetta hafi verið „verulega óklókt“ af hálfu stjórnarliða og tók fram að stjórnarandstaðan hafi sinnt sínum skyldum í umræðunni.

Þorsteinn Víglundsson í ræðustól Alþingis.
Þorsteinn Víglundsson í ræðustól Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn steig síðar í pontu og tók undir orð Hönnu Katrínar og sagði að þingmenn hafi verið með ásakanir í gagnlegri umræðu um að minnihlutinn væri að stunda málþóf en á sama tíma hafi þeir ekki séð sér fært að taka þátt í umræðunni.

Sagði hann þó enn áhugaverðara að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar lægi ekki fyrir og að breytingartillögur séu ekki tiltækar. Hann nefndi að hægt hafi gengið að semja við ríkisstjórnina um lok þings. „Kann að vera að ríkisstjórnin sé einfaldlega ekki tilbúin til þingloka?“ spurði hann og bætti við að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin með þau mál sem átti að klára og þiggi því með þökkum þær tafir sem hafa orðið á þingstörfum „því þau eru ekki búin að vinna heimavinnuna“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert