141 tilfelli en aðeins tíu kærur

Lögregluembættunum, sem skilað hafa inn gögnum til Umhverfisstofnunar, bárust alls …
Lögregluembættunum, sem skilað hafa inn gögnum til Umhverfisstofnunar, bárust alls 62 kærur vegna utanvegaaksturs árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Skráð tilvik utanvegaaksturs þar sem ekki náðist í gerendur á vegi F208, svokallaðri Fjallabaksleið, voru 141 árið 2018, og í tíu tilfellum kærði Umhverfisstofnun utanvegaakstur á sama svæði til lögreglu.

Umhverfisstofnun hefur lögum samkvæmt eftirlit með utanvegaakstri og tekur saman tölur frá lögregluembættum á ári hverju. „Við erum komin með tölur frá öllum embættum fyrir árið 2018 nema Suðurlandi, þar sem er líklega mesta utanvegaaksturssvæðið,“ segir Hákon Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is.

Embættunum, sem skilað hafa inn gögnum til Umhverfisstofnunar, bárust alls 62 kærur vegna utanvegaaksturs árið 2018, en að sögn Hákonar er í langflestum tilvikum ekki hægt að kæra vegna þess að ekki er vitað um gerendur. Sem dæmi sjái landverðir í Landmannalaugum ný hjólför utan vegar nánast daglega.

Fleiri skilti og vegalandvarsla við Fjallabaksleið

Fjallabakssvæðið er að sögn Hákonar langversta svæðið hvað utanvegaakstur varðar, en þar er Umhverfisstofnun nú komin í samstarf við Vatnajökulsþjóðgarð. „Við erum búin að koma upp starfsstöð í Hrauneyjum og erum í vegalandvörslu. Þannig náum við fólki áður en það fer inn á hálendið, gefum því dreifibréf sem við erum með sem kennir fólki að keyra og hvað það á ekki að gera og eigum þetta samtal við það.“

Þá er Umhverfisstofnun í samstarfi við bílaleigurnar, Icelandair og Norrænu þar sem farþegar fá dreifibréf með upplýsingum, auk þess sem Safe Travel birtir upplýsingarnar á skjáum sínum um land allt.

Landverðir grípa í hrífur til að laga skemmdir eftir utanvegaakstur.
Landverðir grípa í hrífur til að laga skemmdir eftir utanvegaakstur. Ljósmynd/Aðsend

„Svo erum við í samstarfi við Vegagerðina um að fjölga þessum stóru utanvegarakstursskiltum þar sem fólki er bent á að það er bannað að aka utan vegar. Þeim hefur alltaf fjölgað frá ári til árs, við erum með áætlun um hve mörg fara upp á hverju ári,“ segir Hákon og að til að mynda verði þrjú ný skilti sett upp við Fjallabaksleið þetta árið.

Hann segir erfitt að segja til um hvort utanvegaakstur færist í aukana eða hvort hann virðist meiri með aukinni meðvitund. „Með fleiri bílum er meira af þessum minniháttar utanvegaakstri, en ég get ekki sagt til um hvort það er orðið meira af alvarlegri tilvikum.“

Langbestu fræðsluna segir hann vera þegar gerandinn er fenginn til að laga til eftir sig þar sem skemmdirnar eru ekki mjög miklar. „Landverðirnir okkar eru alltaf með hrífu í bílnum og hjálpa þeim að raka. Þeir fá þá hrífu í hönd og kost á því að sleppa við kæru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert