8,1% landsmanna fá greidda örorku

mbl.is/​Hari

Áætlað er að árið 2017 hafi 8,1% fólks á aldrinum 16-66 ára fengið greiddan örorkulífeyri sem jafngildir um 17.900 manns. Af þeim voru um 12.400 utan vinnumarkaðar, eða 69,4%, 28,5% voru starfandi og um 400 manns atvinnulausir, eða 2,1%. Atvinnuþátttaka (starfandi og atvinnulausir) örorkulífeyrisþega árið 2017 var því 30,6%.

Árið 2018 er áætlað að 6% ungmenna á aldrinum 16-24 ára hafi ekki verið í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Þetta hlutfall jafngildir því að tæplega 2.400 ungmenni hafi hvorki verið í vinnu né í skóla eða starfsþjálfun það árið. 
Alþjóðlega vinnumarkaðsstofnunin (ILO) hefur bent á að þessi hópur geti verið í áhættuhópi fyrir félagslega einangrun og skort á efnislegum gæðum sökum þess að hann aflar sér hvorki atvinnutekna né byggir upp færni sína með aukinni menntun eða þjálfun, að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti upplýsingar um stöðu örorkulífeyrisþega sem unnar eru úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og skattgögnum.

Þegar staða örorkulífeyrisþega á vinnumarkaði er skoðuð nánar má sjá að af þeim 12.400 sem voru utan vinnumarkaðar, voru 20,8% tilbúnir að vinna en ekki í leit að vinnu en aðeins 0,6% í leit að vinnu en ekki tilbúnir að vinna innan tveggja vikna.

Starfandi örorkulífeyrisþegar voru að jafnaði 5.100 árið 2017. Af þeim töldust 62,4% vera í hlutastarfi og 37,6% í fullu starfi.

Árið 2017 sögðust um 8.900, eða 4,0%, vera öryrkjar eða fatlaðir þegar beðið var um eigið mat á stöðu á vinnumarkaði í vinnumarkaðsrannsókn. Af þeim fengu um 8.400 (94,7%) greiddan örorkulífeyri samkvæmt skattgögnum. Flestir örorkulífeyrisþegar skilgreina sig sem öryrkja eða fatlaða, eða 47,0%. Næstflestir skilgreina sig sem starfandi, eða 23,1% örorkulífeyrisþega. Þriðji stærsti hópurinn skilgreinir sig sem veika eða tímabundið ófæra til vinnu, eða 18,3%.

Ísland hefur, líkt og önnur ríki heimsins, sett sér það markmið eigi síðar en árið 2020, að lækka verulega hlutfall fólks á aldrinum 15-24 ára sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun (Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 8.6). Árið 2014 var NEET hlutfallið 7,2% en lækkaði lítillega næstu ár á eftir og var munurinn frá árinu 2014 orðinn marktækur árið 2016, eða um 2% lækkun, og aftur sambærilegur árið 2017.

Árið 2018 hækkaði hlutfallið lítillega aftur, og var metið 6,0%, en breytingin frá árinu 2017 var þó ekki tölfræðilega marktæk. Hlutfallið 2018 er þó verulega lægra en fyrstu árin eftir efnahagshrunið 2008, þegar það var á bilinu 8,3% til 9,1%. Í stórum dráttum má segja að hlutfall 16-24 ára ungmenna sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun, sé nú aftur orðið svipað því sem þekktist á árunum fyrir hrun.


Árið 2018 var hlutfall ungmenna á Íslandi á aldrinum 16-24 ára sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Í löndum Evrópusambandsins (28 lönd ESB) voru að jafnaði 10,5% ungmenna sem voru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Samkvæmt Eurostat var þetta hlutfall um 5% á Íslandi sem var svipað og í Noregi, Hollandi og Lúxemborg. Hæst var hlutfallið í Tyrklandi, eða 24,4%, en Norður-Makedónía fylgir fast á eftir en þar var hlutfallið 24,1%.

Það ber að árétta að Eurostat miðar aðeins við einstaklingsheimili á meðan Hagstofa Íslands telur einnig með þá sem búa á stofnunum. Þetta er skýringin á því að Hagstofan metur hlutfallið hærra en Eurostat, að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert