Fyrirvari á grundvelli raforkulaga

Stjórnvöld telja ákvæði raforkulaga tryggja rétt Alþingis til þess að …
Stjórnvöld telja ákvæði raforkulaga tryggja rétt Alþingis til þess að ákveða hvort heimilt verður að flytja rafmagn um sæstreng til Evrópu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástæða þess að fyrirvari ríkisstjórnarinnar vegna þriðja orkupakka Evrópusambandsins er í formi þingsályktunnar en ekki frumvarps til laga, er að lagalegt gildi fyrirvarans er að mati yfirvalda bundið við ákvæði raforkulaga. Þetta kemur fram í skriflegu svari atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Almennt séð hafa þingsályktunartillögur ekki lagalegt gildi sem slíkar, en í tilfelli lagningu sæstrengs er það mat stjórnvalda að þar sem kveðið er á um í lögum að flutningskerfi skal byggt upp á grundvelli stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

Stefna um uppbyggingu flutningskerfis er sett með því að ráðherra leggi fyrir Alþingi þingsályktun og er því talið að þingsályktun ríkisstjórnarinnar um að ekki verði lagður sæstrengur undir raforkuflutninga milli Evrópu og Íslands nema með samþykki Alþingis, hafi lagalegt gildi.

Svar ráðuneytisins í heild:

Sú þingsályktun sem vísað er til í lagafrumvarpi ráðherra er þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, þ.e. að í henni komi fram að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfi[s] landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Umrædd þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku hefur ákveðna stöðu að lögum. Í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 kemur fram varðandi skyldur Landsnets að „Flutningsfyrirtækið skal byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“. Einnig má hér vísa til 5. mgr. 9. gr. a raforkulaga þar sem segir: „Nánari útfærsla mannvirkja vegna uppbyggingar flutningskerfisins, svo sem hvort um er að ræða raflínu í jörð eða loftlínu, ræðst af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“. Í 39. gr. a raforkulaga kemur síðan fram að: „Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“.

Fyrir liggur samþykkt þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, þar sem fram koma áherslur stjórnvalda sem Landsnet er bundið af skv. raforkulögum við gerð kerfisáætlunar, og var talið eðlilegt og í samræmi við raforkulög að í þeirri þingsályktun kæmi fram sú stefnumörkun að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfi landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingi. Til að undirbyggja þá tengingu er með frumvarpi ráðherra sem liggur fyrir Alþingi, um breytingu á raforkulögum, kveðið á um að í raforkulögum komi fram að „um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvald[a] um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert