„Fyrst og fremst áhugaverð fjárfesting“

Helgi Magnússon fjárfestir er einn tveggja eigenda í Fréttablaðinu héðan …
Helgi Magnússon fjárfestir er einn tveggja eigenda í Fréttablaðinu héðan af. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gengið var frá samningum þess efnis í gærmorgun að Helgi Magnússon fjárfestir keypti helmingshlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins, Torgi ehf. Það gerir Helga að helmingseiganda í því félagi, á móti félaginu 365 miðlum, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur.

„Ég lít bara á þetta sem áhugaverða fjárfestingu,“ segir Helgi Magnússon í samtali við mbl.is um kaupin. Tilkynnt var um þau á vef Fréttablaðsins í morgun og Helgi segir að það hafi verið gert vegna þess að eitthvað hafi verið farið að spyrjast út um kaupin.

Helgi tekur sæti í stjórn útgáfufélagsins en Ingibjörg Pálmadóttir, sem vel að merkja er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fjárfestis, er áfram stjórnarformaður. Stjórnin verður aðeins skipuð Helga og Ingibjörgu.

Helgi gefur ekkert upp um hvað hann borgaði fyrir hlutinn. „Það er trúnaðarmál milli seljanda og kaupanda og verður það fyrst um sinn,“ segir hann.

Mikilvirkur fjárfestir

„Þegar maður hefur verið nú í hálfan annan áratug í fjárfestingum er maður alltaf með opin augun. Ef manni býðst eitthvað áhugavert skoðar maður það auðvitað. Í þessu tilviki var það mín niðurstaða að ég hefði áhuga á að fjárfesta og ég gerði það,“ segir hann.

Helgi hefur verið í fjárfestingum frá því að hann hætti í eiginlegum rekstri fyrirtækja árið 2005, þegar hann var framkvæmdastjóri Hörpu málningarfyrirtækis. Hann á hlut í Marel og var þar í stjórn í 14 ár og hann er einnig stjórnarformaður í Bláa lóninu. Hann hefur verið í stjórnum lífeyrissjóða og Samtaka atvinnulífsins og fleiri embættum af þeim toga. Þá á hann í ýmsum óskráðum fyrirtækjum.

Helgi var þá á meðal stofnenda stjórnmálaflokksins Viðreisnar á sínum tíma.

Um það hvort einhver hafi leitað sérstaklega eftir hans aðkomu eða fjárfestingu í félaginu segir Helgi að frekar hafi verið um tilviljanir að ræða. „Maður hittir fólk og fer að spjalla og mál þróast,“ segir hann.

Miklar breytingar á stuttum tíma

Nýr ritstjóri var ráðinn á Fréttablaðið í vikunni, Davíð Stefánsson að nafni. Sá hefur ekki bakgrunn í blaðamennsku heldur í viðskiptalífinu og ráku því sumir upp stór augu þegar þær fréttir bárust. Helgi segist ekki hafa tekið beinan þátt í þeirri ákvörðun en hann hafi heyrt af hugmyndinni og litist vel á manninn.

Davíð Stefánsson er nýr ritstjóri Fréttablaðsins. Hann mun starfa við …
Davíð Stefánsson er nýr ritstjóri Fréttablaðsins. Hann mun starfa við hlið Ólafar Skaftadóttur, annars ritstjóra blaðsins, og Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda blaðsins.

„Fréttablaðið var bara að leita að ritstjóra og þau höfðu augastað á þessum manni. Hann er mjög klár og hefur mikla reynslu úr atvinnulífinu og viðskiptum. Hann er vel menntaður líka, með próf frá Harvard og svona, svo að ég held að þau hafi bara fundið ansi góðan mann,“ segir Helgi.

Davíð Stefánsson hefur verið með þættina „Ísland og umheimurinn“ á Hringbraut undanfarið og á sama hátt hefur Helgi í gegnum tíðina verið orðaður við þá stofnun. Helgi segir að þetta ferli tengist Hringbraut ekki á neinn hátt. Hann er ekki hluthafi þar og hefur aldrei verið. Vinir hans eiga hins vegar í því og því segir Helgi að hafi skapast ákveðinn samkvæmisleikur í að tengja hann við Hringbraut vegna tengsla hans við eigendur þess miðils á öðrum vettvangi.

Ekki skemmtileg framtíðarsýn að allt sé í höndum ríkisfjölmiðils

Helgi sér ekki fyrir sér að með aðkomu sinni að fyrirtækinu verði ráðist í stórtækar breytingar. Það sé ekki hans hlutverk. Hann segir reynslumikið fólk þegar að störfum innan þess, sem engin þörf sé á að fara að breyta.

Nýjar skrifstofur Fréttablaðsins eru við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur.
Nýjar skrifstofur Fréttablaðsins eru við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áður en Helgi kom að borðinu átti Ingibjörg félagið að langmestu leyti ein. Nú verða eigendurnir tveir. „Mér finnst skynsamlegt hjá þeim að breikka hluthafahópinn en það er ekki þannig að ég komi þarna inn með mótaða skoðun á öllu eða einhverja fasta stefnu,“ segir Helgi.

„Fyrst og fremst lít ég á þetta sem áhugaverða fjárfestingu. Ég er þeirrar skoðunar að fjölmiðlar gegni mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi. Mér finnst áhugavert að taka þátt í að efla sjálfstæðan fjölmiðil sem þennan,“ segir Helgi.

RÚV ber á góma. „Við þurfum að halda hér uppi skoðanaskiptum og fréttamiðlun og mér finnst ekkert skemmtileg framtíðarsýn að það sé allt í höndum ríkisfjölmiðilsins, sem sækir endalausa fjármuni í vasa skattgreiðenda,“ segir Helgi.

„Það er gríðarlega mikilvægt að frjálsir haldi velli,“ segir nýi eigandinn.

„Torg er eitt öflugasta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Slík fyrirtæki gera mikið til að efla skoðanaskipti og þjóðfélagsumræðu sem aftur er mikilvægt fyrir lýðræði í landinu,“ segir hann. Torg ehf. rekur Fréttablaðið, frettabladid.is, markadurinn.is, tímaritið Glamour og tengda starfsemi.

Fréttablaðið er í eigu 365 miðla, sem áður átti visir.is. …
Fréttablaðið er í eigu 365 miðla, sem áður átti visir.is. Nú á Sýn fréttavefinn visir.is en Fréttablaðið er með sinn eigin vef. Enn eru birtar fréttir úr Fréttablaðinu á Vísi en senn rennur sá samningur út. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert