Labbar hringveginn með hjólbörur

Hugi Garðarsson með hjólbörurnar fyrir utan húsnæði Krabbameinsfélags Íslands í …
Hugi Garðarsson með hjólbörurnar fyrir utan húsnæði Krabbameinsfélags Íslands í dag. Ljósmynd/Aðsend

Hugi Garðarsson leggur af stað frá Þingvöllum á morgun hringinn í kringum landið fótgangandi með hjólbörur meðferðis. Hann gerir ráð fyrir að vera um 100 daga á leiðinni, heimsækja 70 sveitarfélög og ganga 3.000 til 3.500 kílómetra.

„Mig langaði bara að labba hringinn,“ segir hann, spurður um ástæðuna fyrir þessari ævintýraför. „Mig langaði að kynnast þeim hluta af landinu sem ég hef ekki farið á án þess að vera í bíl.“

Ljósmynd/Aðsend

Í leiðinni ætlar hann að safna peningum fyrir Krabbameinsfélag Íslands og er söfnunarsíminn 908-1001 fyrir 1.000 krónur. Í dag gekk hann af stað frá húsnæði félagsins í Skógarhlíð til minningar um ömmu sína sem lést úr krabbameini árið 2014.

Þetta verður í annað sinn sem Hugi, sem er 21 árs, gengur eftir þjóðveginum því fyrir tveimur árum fór hann um 600 kílómetra leið. Hann fór á puttanum hluta Suðurlands og um allt Austurland en þegar hann var kominn til Akureyrar keypti hann hjólbörur og labbaði með þær til Reykjavíkur. Hann segir að besti hluti ferðalagsins hafi verið þegar hann gekk með hjólbörurnar. Þá gat hann næstum tvöfaldað farangur sinn og einnig gengið um 15 kílómetrum lengra á dag, eða samanlagt um 35 km. Þess vegna ákvað hann að endurtaka leikinn með hjólbörurnar meðferðis í sumar.

Leiðin sem Hugi ætlar að fara í sumar.
Leiðin sem Hugi ætlar að fara í sumar. Kort/Aðsent

Spurður hvort ferðalagið verði ekki hættulegt segist hann taka mikið tillit til umferðarinnar á þjóðveginum. Hliðarspegill verður á handfangi hjólbaranna og getur hann því fylgst vel með umferðinni sem kemur að aftan. Ef annar bíll kemur samtímis á móti færir hann sig til hliðar.

„Það eru mjög margir tillitssamir í umferðinni gagnvart hjólreiðamönnum og gangandi vegfarendum. Mjög margir víkja ef það er enginn að koma á móti,“ segir Hugi, sem reiknar með bæði léttum og erfiðum dögum á ferðalaginu.

Auk tjalds, svefnpoka, fatnaðar og matar verður gítar einnig með í för. „Ég verð með „Vegir liggja til allra átta“ í „lúppu“,“ segir hann hress.

Hér verður hægt að fylgjast með ferðalaginu í sumar. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert