Ólafur Ragnar festir kaup á æskuheimilinu

Æskuheimili Ólafs Ragnars við Túngötuna á Ísafirði, sem er beint …
Æskuheimili Ólafs Ragnars við Túngötuna á Ísafirði, sem er beint upp af gamla sjúkrahúsinu þar í bæ. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum auðvitað mjög ánægð með það að fá hann Óla hingað og vonum að hann verði sem mest hérna, enda flottur karl,“ segir Árni Aðalbjarnarson bakarameistari í Gamla bakaríinu á Ísafirði.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, verið að skoða Túngötu 3 á Ísafirði, húsið sem hann ólst upp í, síðustu daga og samkvæmt frétt Vísis fyrr í dag er hann að ganga frá kaupunum. Árni segir í samtali við mbl.is að um lítið annað sé talað í bænum þessa dagana, að minnsta kosti í bakaríinu. 

Ólafur Ragnar fæddist á Ísafirði 14. maí 1943 og er einkasonur Gríms Kristgeirssonar og Svanhildar Ólafsdóttur Hjartar, sem festu kaup á húsinu á Túngötu á sínum tíma.

Ólafur Ragnar hefur ávallt hugsað hlýtt til heimahagana og sem dæmi má nefna nýlega færslu hans á Twitter þar sem hann birti mynd af Napóleonsköku fyrir framan Eiffelturninn í París og sagði hana ekki nærri jafn góða og þá sem boðið er upp á í Gamla bakaríinu í heimabænum, Ísafirði.

„Hann gerði hana fræga,“ segir Árni, en kippur kom í söluna á Napóleonskökum eftir færslu Ólafs. „Hann fékk sér alltaf Napóleonsköku þegar hann kom hér í bakaríið, hann hafði smakkað þetta náttúrulega í gamla daga.“

Napóelonskakan hefur verið í boði í Gamla bakaríinu frá 1920. Kakan, fyrir þá sem ekki vita, er lítil og ferhyrnd, sett saman úr tveimur lögum af smjördeigi með sultu og rjóma á milli og súkkulaði ofan á.

Á næsta ári eru 100 ár síðan fjölskylda Árna tók við bakaríinu, en það var stofnað árið 1871. Sjálfur hefur Árni séð um reksturinn í fimmtíu ár. „Það er líklega enginn búinn að vera í Gamla bakaríinu jafn lengi og ég,“ segir Árni, sem hlakkar til að taka á móti Ólafi Ragnari í Gamla bakaríinu á ný. „Ég vona bara að hann komi sem fyrst.“  

Ólafur Ragnar Grímsson ólst upp á Ísafirði og er nú …
Ólafur Ragnar Grímsson ólst upp á Ísafirði og er nú að ganga frá kaupum æskuheimilinu. Mikil eftirvænting ríkir í bænum, að minnsta kosti í Gamla bakaríinu þar sem Ólafur hefur iðulega lagt leið sína þegar hann er í bænum. mbl.is/Golli
mbl.is