Aðalmeðferð vegna eldsvoða í dag

Frá vettvangi eldsvoðans við Kirkjuveg á Selfossi.
Frá vettvangi eldsvoðans við Kirkjuveg á Selfossi. mbl.is/Eggert

Aðalmeðferð í máli karlmanns og konu sem eru ákærð vegna eldsvoða í íbúðarhúsi við Kirkjuveg á Selfossi í fyrra fer fram í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn.

Maðurinn er ákærður fyrir brennu og manndráp og konan fyrir almannahættubrot.

Maðurinn er til vara ákærður fyrir brennu og manndráp af gáleysi. Hann er grunaður um að hafa lagt eld að pappakassa og gardínum í stofu á neðri hæð íbúðarhúss og valdið þannig eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, vitandi af karlmanni og konu sem voru gestkomandi í svefnherbergi á efri hæð hússins er eldurinn magnaðist upp. Eldurinn hafði breiðst um húsið þegar slökkvistarf hófst.

Afleiðingarnar voru þær að parið lést af völdum kolmónoxíðeitrunar vegna innöndunar á reyk og húsið gjöreyðilagðist. Fram kom í ákæru að ákærði hafi enga tilraun gert til að aðvara fólkið um eldinn eða koma því til bjargar áður en hann yfirgaf húsið.

Konan sem einnig er ákærð var gestkomandi í húsinu og var hún einnig handtekin á staðnum. Hún var úrskurðuð í gæsluvarðhald en Landsréttur felldi það síðar úr gildi. Hún er ákærð fyrir hafa látið hjá líða að gera það sem í hennar valdi stóð til að vara við eldsvoða.

Aðstandendur konunnar sem fórst í eldsvoðanum krefja karlmanninn sem er ákærður um 25 milljónir króna í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert