Lífeyrir lagður í erlendan banka

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis eða dvelja þar langdvölum og fá lífeyri sinn greiddan inn á erlendan bankareikning gætu í sumum tilfellum verið með hærri greiðslur en ef greitt er inn á innlendan reikning.

Þessi sömu lífeyrisþegar gætu allt eins fengið minna greitt inn á erlendan bankareikning en íslenskan.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins á þriðjudag jukust greiðslur inn á erlenda reikninga lífeyrisþega frá Tryggingastofnun, um 47% á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun eru almannatryggingabætur greiddar í íslenskum krónum enda réttindin og fjárhæð bóta tiltekin í íslenskum krónum í lögum og reglugerðum þar um. Bætur og greiðslur eru greiddar inn á reikning sem viðkomandi aðili óskar eftir og er í eigu hans.

Ef lífeyrisþegi óskar eftir að lagt sé inn á erlendan reikning í eigu viðkomandi þá verður Tryggingastofnun við þeirri beiðni. Slík millifærsla fer í gegnum þjónustubanka sem miðar þá við gengi þess dags þegar millifærsla á sér stað og getur endanleg greiðsla til viðkomandi breyst eftir gengisskráningu hvers dags. Lífeyrisþegi ber sjálfur kostnað af millifærslunni enda ekki að finna heimild til greiðslu slíks kostnaðar í almannatryggingalögum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum kostar 1.900 kr. að millifæra af íslenskum bankareikningi yfir á erlendan ef þess er óskað símleiðis. Millifærsla í gegnum heimabanka er 700-900 kr.

Ef reiðufé er tekið út með íslensku kreditkorti erlendis er tekin 2,75% þóknun en lágmarksþóknun er 800 kr. Þóknun á úttekt af debetkorti í erlendum hraðbanka eða banka er 2% og sé greitt með debetkorti hjá sölu- eða þjónustuaðila erlendis er þóknunin 1%. Mismunandi vextir á milli landa og breytilegt gengi og fjöldi lífeyrissjóða sem greiðslur koma frá er ein breyta sem lífeyrisþegar þurfa að skoða þegar þeir ákveða hvers konar reikning þeir vilja fá lífeyri sinn lagðan inn á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert