Skaðabætur vegna neitunar á fari

Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Samgöngustofa hefur úrskurðað að WOW air greiði farþega um 84 þúsund krónur í skaðabætur vegna neitunar á fari.

Þann 6. mars 2019 barst Samgöngustofu kvörtun frá farþeganum sem átti bókað far með flugferðum WOW air frá Pittsburg til Amsterdam með millilendingu í Keflavík 28. nóvember 2018.

Farþeganum var tilkynnt 27. nóvember um að flug WW442 frá Keflavík til Amsterdam væri aflýst. Hann fór fram á skaðabætur á grundvelli reglugerðar um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

Vildi ekki fljúga til Brussel 

Samgöngustofa sendi WOW air kvörtunina til athugasemda með tölvupósti  7. mars. Í  svari WOW fimm dögum síðar kom fram að farþegar úr fluginu frá Keflavík til Amsterdam hafi verið færðir yfir á flug Keflavíkur til Brussel sama daga þar sem flugtímar og komutímar voru svipaðir. Farþeginn valdi aftur á móti að fá endurgreitt í stað þess að ferðast til Brussel. „WOW bauðst til að greiða öllum þann kostnað sem fólst í því að ferðast á milli Amsterdam og Brussel,“ segir í svarinu.

Í úrskurði Samgöngustofu kemur fram að farþeginn hafi lagt fram kvörtun þar sem hann óskaði eftir skaðabótum úr hendi WOW sökum þess að honum hafi verið neitað um far og að ekki hafi  legið réttmætar ástæður að baki neituninni.

„Í umsögn WOW í málinu er vísað til röksemda um að kvartandi hafi verið komið á áfangastað með öðru flugi á svipuðum tíma og upphaflega var áætlað. Þannig er kvartandi og flugrekandi í máli þessu ekki á sama máli um hvernig beri að heimfæra það tilvik sem hér er til umfjöllunar í skilningi reglugerðar EB nr. 261/2004,“ segir í úrskurðinum.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

38 mínútna seinkun 

Fram kemur að fyrir liggi að farþeginn átti bókað far með flugi WW422 þann 28. nóvember og að honum var meinað að ganga um borð þrátt fyrir að vera með staðfesta farþegaskráningu. Álitaefnið í málinu snúist um hvort neitun WOW um far hafi verið réttmæt.

„Kvartanda var tilkynnt um að flugi hans frá Keflavík til Amsterdam væri aflýst en ljóst er af gögnum málsins að flugi WW442 þann 28. nóvember fór frá Keflavík í 38 mínútna seinkun og því óljóst er hví kvartanda var tilkynnt deginum áður að umræddu flugi væri aflýst. Að öllu framangreindu virtu er það mat Samgöngustofu að um neitun á fari sé að ræða í skilningi j‐lið 2. gr. og 4. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 og WOW hefur ekki borið fyrir sig réttmætar ástæður fyrir umræddri neitun á fari. Þannig ber að fallast á kröfu kvartanda um greiðslu staðlaðra skaðabóta úr hendi WOW,“ segir í niðurstöðu Samgöngustofu.

mbl.is