Verið að samþykkja óheft flæði raforku

Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi dósent …
Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. mbl.is/RAX

„Með þriðja orkupakkanum verður ekki betur séð en að við séum að játa okkur undir það og festa það í sessi að raforka, eins og hver önnur vara, flæði óheft á milli landa. Frjálsa flæðið á vörum er fyrir hendi, skilgreining á raforku sem vöru er fyrir hendi, en með þriðja orkupakkanum kemur regluverk sem fjallar sérstaklega um tengingar á milli landa.“

Þetta segir Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Þannig sé inngangur tilskipunar 2009/72/EC, sem er hluti af þriðja orkupakka Evrópusambandsins, skýr hvað þetta varðar sem og markmið og skuldbindingar ríkja sem undirgangist hana.

„Gegnumgangandi í textanum er áhersla á að ríki skuldbindi sig til að ryðja úr vegi hindrunum í þessu sambandi.  Markmiðið er sömuleiðis kristaltært, það er að auka samkeppni á þessu sviði milli landa. Komi til þess að Alþingi maldi á síðari stigum í móinn munu ráðamenn í Brussel spyrja sömu spurningar og ég spyr nú: Til hvers voru Íslendingar eiginlega að samþykkja þriðja orkupakkann ef þeir vilja síðan ekki flytja raforku til annarra landa?“ segir Arnar Þór ennfremur.

Smáríki varist að verða að leiksoppum

Miklar breytingar hafa átt sér stað á EES-samstarfinu á þeim 25 árum sem Ísland hafi verið aðili að því, segir Arnar Þór. Lýðræðisleg vinnubrögð hafi þannig til að mynda vikið fyrir valboði ofan frá. „Dómstólar og eftirlitsstofnanir taka ákvarðanirnar og stýra ferlinu, en ekki kjósendur og lýðræðislega kjörin löggjafarþing. Þetta þarf að ræða heiðarlega, sérstaklega út frá hagsmunum smáþjóða í alþjóðlegu samstarfi. Hér er runninn upp nýr veruleiki sem ég tel að við þurfum að vera vel vakandi gagnvart sé okkur á annað borð umhugað um fullveldi Íslands og efnahagslegt sjálfstæði.“

Þannig verði smáríki að varast það á tímum alþjóðavæðingar að verða ekki gerð að leiksoppum. Það felist í því að gjalda beri varhug við íhlutun valdamikilla stofnana, sjóða og ríkjabandalaga á íslenskt lagasetningarvald. Hvað þriðja orkupakkann varðar segir Arnar Þór þannig hægðarleik að höfða samningsbrotamál gegn Íslandi og „hnekkja fyrirvörum stjórnvalda, því fjórfrelsi EES-samningsins er æðra sérstökum fyrirvörum. Sérstaklega þegar litið er til þess hvert meginmarkmið umræddrar tilskipunar er eins og ég hef áður nefnt.“

Fyrirvarar vegna hráa kjötsins gagnslausir

Þegar hér er komið sögu bendir Arnar Þór á að Íslendingar hafi verið með mjög góð rök í málflutningi sínum gegn innflutningi á hráu kjöti, meðal annars vegna einangraðrar legu landsins líkt og í orkupakkamálinu, en þau hafi hins vegar komið að engu haldi. „Við vorum með skýra fyrirvara varðandi landbúnað við gerð EES-samningsins en stöndum svo frammi fyrir innflutningi á hráu kjöti erlendis frá.“ Vísar hann þar til einhliða fyrirvara ríkisstjórnarinnar vegna þriðja orkupakkans þess efnis að sá hluti löggjafarinnar sem fjallar um raftengingar á milli landa verði innleiddur en gildistöku hans frestað.

Tekur Arnar Þór undir með þeim Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árna Friðrikssyni Hirst landsréttarlögmanni að lögfræðilega rétta leiðin í málinu með hliðsjón af EES-samningnum sé að Alþingi hafni því að samþykkja þriðja orkupakkann með því að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara af löggjöfinni og vísa þar með málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem hægt væri óska eftir lagalega bindandi undanþágum. Fyrirvari ríkisstjórnarinnar ætti sér hins vegar enga slíka stoð í samningnum.

Vilji íslenska þjóðin samþykkja þriðja orkupakka Evrópusambandsins sé það ákvörðun hennar segir Arnar Þór ennfremur. En sú ákvörðun eigi að vera tekin af Íslendingum sjálfum að undangenginni vitrænni umræðu en ekki í Brussel eða af EFTA-dómstólnum. „Þess vegna tel ég rétt að málið fái meðgöngutíma og að við látum tímann hjálpa okkur við að melta það.“

Ægivald erlendra skriffinna sama og frjálslyndi?

„Það þarf að ná umræðunni upp úr lágkúru eins og þeirri að þeir sem styðji samþykkt þriðja orkupakkans séu frjálslyndir en hinir forpokaðir. Þar fyrir utan má spyrja hvað sé svona frjálslynt við það að vilja játa sig undir vald erlendra skriffinna og standa gegn sjálfsákvörðunarrétti þjóða? Er það að sama skapi frjálslynt að vilja lúta hagsmunum erlendra stórfyrirtækja? Gengur ekki frjálslyndi einmitt út á að virða sjálfsákvörðunarrétt annarra í lengstu lög?“ spyr Arnar Þór.

AFP

Evrópusambandið virðist nú starfa með þeim hætti, segir hann, að ef ekki sé hægt að koma markaðsbreytingu í gegn með lýðræðislegum hætti, vegna þess að kjósendur vilja það ekki,  skuli það gert í gegnum dómstólakerfið. Hafa verði í huga í því sambandi að EFTA-dómstóllinn sé léttvægur í því sambandi enda beri honum að fylgja dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins. Einnig þurfi að hafa í huga að EES-samningurinn sé „dýnamískur“ samningur. „Við vitum með öðrum orðum ekki hvert hann muni þróast. Við erum farþegar en ekki í bílstjórasætinu. Við erum ekki þátttakendur í lýðræðislegu ferli. Af hverju eigum við að undirselja okkur slíkri óvissu?“

Óvissuferð með hagsmuni heillar þjóðar

Hagsmunagæsla gangi einmitt út á að verja sig gagnvart því sem hugsanlega kunni að gerast. „Það er óábyrgt að fara í óvissuferð með hagsmuni heillar þjóðar. Ég hef þá óþægindatilfinningu fyrir málinu að verið sé að breiða yfir það klúður sem átti sér stað á fyrri stigum, það er að hafa ekki andmælt þessu fyrr. Málið sýnir því miður að það vantar alla fagmennsku í það hvernig staðið er að hagsmunagæslu fyrir Ísland. Engin greining á málinu virðist hafa farið fram og fagmennskan er ekki sjáanleg. Hagsmunagæslan virðist þannig  í molum,“ segir Arnar Þór ennfremur.

„Málið varðandi þriðja orkupakkann er stórmál og ráðamönnum er skylt að hafa á hreinu hvaða afleiðingar möguleg innleiðing muni hafa. Hvers vegna er ekki hægt að hafa það á hreinu? Ekkert er því til fyrirstöðu að við höfnum því að innleiða þessa tilskipun Evrópusambandsins. Slík ákvörðun truflar ekki samstarfið við það. Þetta er hagsmunagæsla. Ef við megum ekki gæta okkar eigin hagsmuna, hvað segir það þá um stöðu okkar? Erum við ekki frjáls þjóð í viðskiptum við Evrópusambandið?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert