„Allt klossfast“ eins og er

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við spurðum ráðuneytið spjörunum úr. Hvað er á bak við þessar ráðstafanir í samhengi við stefnuna. Við verðum svo að vinna úr því,“ segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, eftir fund fjárlaganefndarinnar með fulltrúum fjármálaráðuneytisins í morgun. 

Fulltrúar ráðuneytisins ræddu um þær ráðstafanir sem þarf að gera á fjármálastefnu ríkisins svo fjármálaáætlunin gangi eftir á fundi fjárlaganefndar í morgun. Endurskoðuð fjár­mála­stefna ríkisins fyr­ir árin 2018 til 2022 var lögð fram 29. maí síðastliðinn

Fjárlaganefndin er með tvö mál á sínu borði, endurskoðuð fjármálastefna og ríkisfjármálaáætlun miðað við breytta stefnu. Nefndin vinnur með tillögurnar og leggur mögulega til breytingar eftir umfjöllun nefndarinnar.

Fjárlaganefnd fjallar um end­ur­skoðaða fjár­mála­stefnu fyr­ir árin 2018 til 2022.
Fjárlaganefnd fjallar um end­ur­skoðaða fjár­mála­stefnu fyr­ir árin 2018 til 2022. mbl.is/Hari

Breytingarnar eru ekki umfangsmiklar á milli umræðna í ljósi endurskoðaðrar stefnu, segir Willum. Fjárlaganefndin kemur aftur saman um hádegið í dag og á hennar fund koma fulltrúar fjármálaráðs til að fara yfir sína umfjöllun um endurskoðaða stefnu.    

Nefndin hefur sent út umsagnarbeiðni á endurskoðaðri áætlun meðal annars til Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandsins, Viðskiptaráðs o.fl. Í vinnu sinni hefur nefndin einnig verið í sambandi við greiningardeildir bankanna.

„Hóflega bjartsýnn“

„Ef allt gengur vel og við náum að vinna um helgina ættum við að geta það á þriðjudag eða miðvikudag,“ segir Willum spurður hvenær nefndin skili af sér áliti. Stefnt er að því að fá gesti á fund nefndarinnar á þriðjudaginn í næstu viku. 

„Ég er hóflega bjartsýnn með það. Ég get vel ímyndað mér að vera hér eitthvað fram í sumarið og reikna með því að verða út júní í það minnsta. Það er allt háð því hvernig vinnst úr málunum og hvernig um semst. Mér sýnist eins og er allt klossfast,“ segir Willum spurður um þinglok, og bætir við „málþófið hangir alltaf yfir. Við þurfum að klára þriðja orkupakkann.“  

Hann segir að aðeins hafi birt til í gær þegar náðist að vinna á nokkrum þingmálum. Hann vísar til atkvæðagreiðslu á 14 frumvörpum sem verða síðar í dag. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert