Davíð þarf ekki að víkja en fær skammir

Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari.
Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari. mbl.is/RAX

Davíð Þór Björgvinsson landsréttardómari þarf ekki að víkja sem dómari réttarins í sakamáli vegna starfa sinna fyrir ríkislögmanns í Landsréttar-málinu. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar og staðfestir hann fyrri úrskurð Landsréttar í málinu. Hafði lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson farið fram á að Davíð yrði gert að víkja sem dómara vegna ráðgjafar sem hann veitti ríkislögmanni og fékk greitt 1,5 milljónir fyrir. Taldi Vilhjálmur að vegna þessa væri Davíð vanhæfur til að dæma í öllum þeim málum sem vörðuðu íslenska ríkið.

Vilhjálmur var lögmaður manns í Landsréttar-málinu sem tók á hvort fjórir dómarar við Landsrétt væru vanhæfir til að dæma vegna skipunar þeirra. Í þessu máli kom fram í málatilbúnaði Vilhjálms að Landsréttar-málið væri rekið gegn sér sem verjenda.

Davíð veitti ráðgjöfina í fyrra og ritaði grein á vefsíðu sína þar sem niðurstaða hans var að þrátt fyrir að dómur Mannréttindadómstólsins félli gegn íslenska ríkinu, líkt og raunin varð, myndi það ekki hafa þau áhrif að „úr gildi falli all­ir dóm­ar sem þeir dóm­ar­ar, sem ráðherra setti á list­ann í trássi við álit dóm­nefnd­ar, hafa átt þátt í að kveða upp“. Á þessum tíma var Davíð í leyfi frá störfum við Landsrétt, en hann hafði verið settur ríkissaksóknari í svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmáli. 

Vilhjálmur taldi aðkomu hans gera hann vanhæfan til að dæma í málum sem tengdust íslenska ríkinu vegna þessa.

Í dómi Hæstaréttar segir að það sé „fjarstæða“ að halda því fram að Landsréttar-málið hafi verið rekið gegn Vilhjálmi og að það snúi að engu að sakarefni þess sakamáls sem nú er tekist á um. „Það eitt, að þetta verk Davíðs hafi verið leyst af hendi í þágu íslenska ríkisins áður en hann tók við dómarastarfi, getur ekki valdið því að hann verði í bráð eða til lengdar talinn vanhæfur til að sitja í dómi í sérhverju einkamáli, sem ríkið á aðild að, eða sakamáli, sem handhafi ríkisvalds höfðar,“ segir í dóminum.

Hæstiréttur skammar Davíð þó fyrir þátttöku hans í „almennri umræðu“ og segir hana vera „óvenjuleg og getur orkað tvímælis hvort ún sé samrýmanleg starfi hans.“ Það breyti því hins vegar ekki að hann sé ekki vanhæfur eða þurfi að víkja sæti í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert