„Þessar skepnur komast út um allt“

Mynd af svæðinu þar sem Reimar fann hræin af flökkukindunum …
Mynd af svæðinu þar sem Reimar fann hræin af flökkukindunum tveimur. Ljósmynd/Reimar Vilmundarson

„Við héldum að þær væru bara tvær og báðar dauðar. En svo skoðuðum við betur myndir í gær sem voru teknar í síðustu viku og sáum betur að það voru greinilega tvö hræ til staðar þegar þriðja kindin er þarna hlaupandi í kringum húsið. Við erum ekki viss en höldum að það sé þriðja kindin einhversstaðar, sem er kannski hlaupin til fjalla eða fjöru,“ segir Bergur Þrastarson, bóndi í Reykhólasveit.

Bergur segist hafa saknað tveggja lambhrúta síðasta haust og veit nú að annar hrútanna sem fundust dauðir í Bolungarvík á Hornströndum í síðustu viku er hans.

„Það fundust tvö hrútlömb þarna dauð, annað við húsin og hitt í skurði, annað þeirra er pottþétt frá mér en af hinu var búið að éta hluta af hauskúpunni þannig að merkið var farið. En mig vantaði vissulega tvo hrúta og þeir hafa líklegast haldið sér saman. Hvort að ég eigi hrútinn sem gæti verið lifandi eða hvort það sé eitthvað annað veit ég ekki. Þetta verður alveg svolítið spennandi,“ segir Bergur.

Ummerki um þriðju kindina víða 

Í síðustu viku sáust tvær kindur úr flugvél á Hornströndum og var önnur dauð en hin hlaupandi á svæðinu. Reimar Vilmundarson, bóndi á Hornströndum fór síðan í vikunni og sá þá að þar voru tvö hræ en að ummerki um þriðju rolluna voru víða.

„Það benti allt til þess að þetta hafi verið þrjár kindur. Tvær eru dauðar og ég sá ekki þessa þriðju. Hún hefur eflaust farið eitthvað á flakk til fjalla. Eftir að hafa svo skoðað myndbandið sem ég fékk af þessu fyrst stend ég alveg fast á því að þær hafi verið þarna þrjár,“ segir Reimar.

„Þær hafa verið hérna við húsið mjög lengi því það er það mikill skítur og það mörg bæli sem þær hafa legið í.“

Íslenskar kindur komast allt 

Reimar segist ekki geta áttað sig nákvæmlega á því hvernig kindurnar hafi komist á þennan afskekktasta stað landsins en að ekki sé tilefni til að vanmeta harðgert íslenskt sauðfé.

„Þessar skepnur komast út um allt og eru alveg ótrúlega lífsseigar. Það voru ummerki um að önnur þeirra hafi dottið ofan í skurð og fest sig þar. En hin hefur drepist þarna á planinu við húsið og ekki vitað af hverju. En þetta er alveg ótrúlega mikið ferðalag. Maður hefur alveg heyrt af svona ferðalögum en bara ekki á þessu svæði,“ segir Reimar.

Á myndinni má sjá rolluna við húsvegg í Bolungarvík á …
Á myndinni má sjá rolluna við húsvegg í Bolungarvík á Hornströndum. Svo virðist sem hræ af minni rollu sé við hlið hennar. Ljósmynd/Eiríkur Kristjánsson

Bergur segist ekki vita hvort að kindurnar hafi komist á Hornstrandir í fyrrahaust eða í vetur.

„Ég saknaði tveggja lamba síðasta haust. Ef það er þriðja kindin í spilinu er spurning hver hún sé og hver eigi hana. Þær hafa líklega annað hvort farið bara yfir Drangajökul eða bara hreinlega að honum austan- eða vestanverðum. Það er vissulega mikið labb og kunnugir segja að það séu þarna fallvötn og ár sem hefur þurft að fara yfir nema það hafi verið á ís í vetur.

„Maður hefur nú séð kindur labba út um allt. Þær hafa væntanlega verið að fara á snjó í vetur og það gerir það auðveldara. En þú labbar ekkert svo auðveldlega út í þennan fjörð, hann er mjög grýttur og svona. En hvernig sem þær hafa komist þangað er það mikið afrek. Það hefði bara verið gaman ef þær væru allar lifandi,“ segir Bergur og hlær.

mbl.is