Braut Tik­hom­irov reglur í Dyrhólaey?

Tik­hom­irov sést hér hoppa í Dyrhólaey.
Tik­hom­irov sést hér hoppa í Dyrhólaey. Skjáskot/Instagram

„Ekki fara þangað, ekki anda að þér þarna,“ skrifar Rússinn Al­ex­and­er Tik­hom­irov, sem olli tals­verðu tjóni með ut­an­vega­akstri skammt frá jarðböðunum við Mý­vatn á dög­un­um, á In­sta­gram-reikn­ingi sín­um.

Þetta skrifar Tik­hom­irov við mynd á Instagram-síðu sinni þar sem hann sést hoppa af kletti við Dyrhólaey á Suðurlandi. 

„Það er ómögulegt að lifa,“ skrifar Tik­hom­irov þar sem hann virðist vísa til reglna sem gildi hér á landi. Hann bætir við að til sé fólk sem geti ekki lifað án þess að brjóta reglurnar.

Ekki er hægt að segja til um nákvæmlega hvenær sólarhrings myndin var tekin en Umhverfisstofnun greindi frá því í byrjun maí að ákveðið hefði verið að takmarka umferð um Dyrhólaey 3. maí til 25. júní milli kl. 9:00 og 19:00.

Þá yrði umferð almennings einvörðungu heimil um Lágey og Háey eftir merktum göngustígum og akvegum. Á næturnar er friðlandið lokað frá 19:00 til 9:00. Ákvörðun var tekin í kjölfar skýrslu fuglafræðings á árlegri athugun á stöðu fuglalífi í Dyrhólaey og með tilliti til verndunar fuglalífs á varptíma.

Tik­hom­irov hefur áður sagt frá reynslu sinni af því að honum og ferðafélögum hans hafi mætt ískalt viðmót heimamanna eftir utanvegaaksturinn við Mývatn á dögunum. Hann var sektaður um 450 þúsund krónur fyrir athæfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert