Segir breytingartillögurnar „ótrúlegar“

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir breytingartillögur ríkisstjórnarinnar á fjármálaáætlun sinni vera „ótrúlegar“. Breytingarnar voru kynntar á fundi nefndarinnar í gær og segir Ágúst að þar sé meðal annars horft til þess að lækka fjárframlög til öryrkja næstu fimm árin samanlagt um tæpa 8 milljarða miðað við fjármálaáætlunina sem lögð var fram fyrr á árinu.

Í færslu á Facebook tekur Ágúst saman tólf punkta varðandi breytingarnar þegar miðað er við fyrri áætlun. Þar á meðal er þriggja milljarða króna samanlagða lækkun til nýsköpunar og rannsókna á næstu fimm árum, 1,4 milljarða lækkun á fimm árum til umhverfismála og 1,8 milljarða lækkun til framhaldsskóla.

Tengir Ágúst lækkunina til umhverfismála við stefnu stjórnarflokkanna. „Kemur þetta verulega óvart í ljósi mikilvægi málaflokksins og orða ráðamanna um þessi mál að undanförnu.“ Segir hann menningu og æskulýðsmál fá 8,6% lækkun á heildarframlögum frá 2019 til 2024, sjúkrahúsþjónustu lækka um 4,7 milljarða samanlagt yfir árin fimm og heilsugæslu og sérfræðiþjónustu lækka um tvo milljarða á fimm árum.

Þá segir Ágúst samgöngumál lækka um 17% og að fjárframlög í málaflokkinn séu lækkuð um 2,8 milljarða á næstu fimm árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert