Árásin algeng leið til að valda vandræðum

Íslenska landsliðið leik­ur gegn Tyrklandi í kvöld, en koma Tyrkj­anna …
Íslenska landsliðið leik­ur gegn Tyrklandi í kvöld, en koma Tyrkj­anna til lands­ins hef­ur verið áber­andi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árásin sem gerð var á heimasíðu KSÍ er þess eðlis að gerviumferð um síðuna er búin til með það að markmiði að álag á síðunni verði svo mikið að síðan detti niður. Slík árásarumferð er enn um síðuna en henni er haldið niðri af starfsmönnum Advania. Þetta segir Einar Þórarinsson, framkvæmdarstjóri þjónustusviðs Advania.

Einar segir það ekki vera svo að hægt sé að rekja árásina og finna út hver hafi verið að verki.

„Eðli svona árása er að þær koma ekki frá einhverjum einum stað. Þetta kemur bara héðan og þaðan út frá netinu séð um heimsbyggðina. Það er ekki þannig að það sé hægt að rekja þetta. Við getum ekki fest fingur á hvaðan svona hlutir koma. Það er ennþá svona árásarumferð í gangi sem er í raun bara magn umferðar sem er send á svona vefi,“ segir Einar.

Einar segir það tæknilega ómögulegt að komast að því hvort að sömu aðilar standi á bakvið árásina á vefsíðu KSÍ og voru að verki í fyrradag þegar tyrk­neski hakk­ara­hóp­ur­inn Anka Neferler Tim gerði tvær tölvu­árás­ir á vefsíðu Isa­via.

„Það er ekkert sem hvorki bendir til þess eða hrekur það. Þetta er auðvitað mjög áberandi við þessar kringumstæður.“

Einar segir árásir á borð við þessar vera nánast daglegt brauð í tækniheiminum og sé fyrst og fremst til að valda vandræðum og truflunum. Árásin hafi engin áhrif á vefsíðu KSÍ fyrir utan það að hún datt niður í skamman tíma um klukkan ellefu í morgun.

„Þetta eru í rauninni bara margar tölvur sem gera fyrirspurn á eina tölvu og er mjög algengt á netinu ef þú vilt af einhverjum ástæðum trufla vefsíðu einhvers, þá er þetta mjög þekkt aðgerð.

„Þetta er eins og stór vinahópur myndi taka sig saman og hringja í einhvern síma og teppa skiptiborðið og allar línur. Það gerist ekki óvart.“

Upplýsingafulltrúi Advania, Þóra Tómasdóttir, segir að þó að aðeins vefsíða KSÍ hafi orðið fyrir árásinni urðu nokkrir aðrir viðskiptavinir Advania fyrir smávægilegum truflunum á meðan verið var að bregðast við. Það hafi þó aðeins verið í skamman tíma og að búið sé að upplýsa þá viðskiptavini um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert