Íslandsbanki verðlaunar námsmenn

Námsmennirnir tóku við viðurkenningum í höfuðstöðvum Íslandsbanka í Norðurturni.
Námsmennirnir tóku við viðurkenningum í höfuðstöðvum Íslandsbanka í Norðurturni. Ljósmynd/Íslandsbanki

Þrettán námsmenn fengu á dögunum námsstyrk frá Íslandsbanka. Í tilkynningu frá bankanum segir að styrkþegar eigi það allir sameiginlegt að vera afsbragðsnámsmenn auk þess að mörg hver þyki hafa skarað fram úr á sviði íþrótta-, lista- og félagsmála.

Styrkirnir eru veittir í þremur flokkum: þrír til framhaldsskólanema að fjárhæð 100.000 kr., fimm til grunnnáms á háskólastigi að fjárhæð 300.000 kr., og fimm til framhaldsnáms á háskólastigi að fjárhæð 500.000 kr.

Íslandsbanki hefur innleitt fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína: aðgerðir í loftslagsmálum, jafnrétti kynjanna, menntun fyrir alla og uppbygging og nýsköpun. Segir í tilkynningu að þau markmið hafi verið höfð til hliðsjónar við veitingu styrkjanna.

Í dómnefnd sátu Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Guðlaugur Örn Hauksson, starfsþróunarstjóri Íslandsbanka, og Lilja Pálsdóttir, útibússtjóri í Norðurturni.

Nemendurnir þrettán sem hljóta styrkinn eru:

Sigurrós Halldórsdóttir, nemi í blindflugi í Billund Air Center í Danmörku. Hún hefur unnið sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og stefnir á að vinna hjá Landhelgisgæslunni í framtíðinni.

Bjarki Daníel Þórarinsson, nemi við Menntaskólann í Reykjavík. Hann  hefur sýnt framúrskarandi námsárangur auk þess að taka virkan þátt í félagslífi Menntaskólans og situr meðal annars í jafnréttisnefnd skólans.

Alexandra Rós Norðkvist, nemi í nýstofnuðum Menntaskóla í tónlist. Alexandra lærir þar á þrjú hljóðfæri: trommur, trompet og gítar, og er námsárangur hennar framúrskarandi. Alexandra stefnir á að vinna við kvikmyndir og leikhús.

Smári Snær Sævarsson, nemi í hagnýtri stærðfræði við Háskóla Íslands. Smári hefur meðal annars starfað sem sjálfboðaliði í ungmennabúðum Lions á Ítalíu auk þess að sitja í stjórn Stiguls, félags stærðfræði- og eðlisfræðinema við Háskóla Íslands.

Sólrún Arnarsdóttir, sem í haust hefur nám í textílhönnun við Central Saint Martins-skólann í Bretlandi. Sólrún vill með störfum sínum snúa textíliðnaðinum til betri vegar þannig að hann verði að sjálfbæru hringrásarkerfi en iðnaðurinn þykir nú mjög mengandi.

Gríma Irmudóttir, nemi í fjölmiðlum og kvikmyndagerð við Listaháskólann í London. Lokaverkefni hennar fjallar um fólk í fjórum löndum sem gerir allt til þess að lifa umhverfisvænum lífsstíl.

Björn Áki Jósteinsson, nemi í verkfræðilegri eðlisfræði við Háskóla Íslands. Björn starfar samhliða námi sem stundakennari við HÍ og mun í sumar stunda rannsóknir hjá dr. Friðriki Magnússyni.

Alec Elías Sigurðarson, nemi í efnafræði við Háskóla Íslands. Alec hefur meðal annars verið í landsliði Íslands í efnafræði og er hluti sprengjugengisins sem sér um efnafræðisýningar fyrir almenning.

Freyja Björk Dagbjartsdóttir, sem hefur í haust doktorsnám í efnaverkfræði við Camebridge-háskóla. Freyja vonast til að geta nýtt þekkingu sína til að taka þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar og leita fjölbreyttra orkulausna.

Valentin Oliver Loftsson, meistaranemi í gagnavísindum við EPFL-háskólann í Sviss, sem vill að námi loknu einsetja sér að bæta aðgengi að menntun í heiminum, einkum með hliðsjón af tungumálum.

Árni Freyr Gunnarsson, doktorsnemi í stærðfræðilegri eðlisfræði og hagnýtingu í læknavísindum við Oxford-háskóla. Hann hefur meðal annars starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Sigríður Diljá Vagnsdóttir, meistaranemi í íslenskukennslu við Háskóla Íslands, sem stefnir á starf sem framhaldsskólakennari. Meðalaldur framhaldsskólakennara er yfir 50 ár og vantar sárlega ferskt blóð í stéttina. Þykir Sigríður búa yfir þekkingu og hafa einstakan hæfileika til að miðla henni.

Sigfús Helgi Kristinsson, doktorsnemi í talmeina- og taugafræði við Háskólann í Suður-Karólínu, sem samhliða námi starfar við rannsóknir á málstoli. Hyggst hann helga starfsferil sinn rannsóknum á forspárþáttum fyrir bata hjá fólki sem glímir við málstol eftir heilablóðfall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert