Þegar heimurinn breytist, þá breytist NATO

Jens Stoltenberg sótti Ísland heim í dag.
Jens Stoltenberg sótti Ísland heim í dag. Kristinn Magnússon

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, segir mikilvægt að hafa í huga að friður í aðildarríkjum bandalagsins sé síður en svo sjálfsagður. Horfast þurfi í augu við að aldrei verði að fullu komið í veg fyrir hryðjuverk og þegar aðildarríki NATO verði fyrir slíkum árásum leiti hann í persónulega reynslu sína síðan hann stóð frammi fyrir hryðjuverkunum í Útey og Ósló í júlí 2011, þegar hann var forsætisráðherra Noregs og þurfti að hughreysta þjóð sína. Hann segir að mikilvægi ríkjanna á Norðurslóðasvæðinu fyrir NATO fari vaxandi og að Ísland gegni mikilvægu hlutverki innan bandalagsins á margan hátt.

Stoltenberg var staddur hér á landi í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag þar sem hann átti vinnu- og samræðufundi með Katrínu og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. 

Síðar um daginn hélt hann erindi á opinni málstofu á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ, utanríkisráðuneytisins og Varðbergs og eftir þann fund gaf hann sér tíma til að setjast niður til viðtals með blaðamanni Morgunblaðsins. Stoltenberg var kátur eftir fundinn sem hann sagði einkar vel heppnaðan og hann væri síður en svo þreyttur eftir öll fundahöld dagsins. „Ég er kornungur maður og það þarf meira til að þreyta mig,“ sagði hann hlæjandi. „Allir þessir fundir minna mig á kosningabaráttuna í gamla daga.“

Jens Stoltenberg á fundi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Varðbergs …
Jens Stoltenberg á fundi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Varðbergs og utanríkisráðuneytisins í Norræna húsinu í dag. Haraldur Jónasson/Hari

Ófyrirsjáanleiki og brotakennt ástand

Áðurnefndur fundur var haldinn undir yfirskriftinni NATO og Ísland í 70 ár: Öflug samvinna á óvissutímum. Spurður um hvaða óvissu NATO-ríkin búi við núna, 70 árum eftir stofnun bandalagsins segir Stoltenberg að hún felist fyrst og fremst í ófyrirsjáanleika.

„Á tímum kalda stríðsins tókust austur og vestur á á ýmsan hátt. Að hluta til var það ástand fyrirsjáanlegt; það var auðvelt að bera kennsl á hætturnar því þær komu fyrst og fremst úr einni átt; frá Sovétríkjunum. Ástandið í dag er brotakenndara og flóknara ekki síst vegna framferðis Rússa en einnig vegna ýmissa hryðjuverkasamtaka víðs vegar í heiminum og ný tækni spilar þar inn í. Þetta er áskorun fyrir NATO og það verður sífellt erfiðara að spá fyrir um hvaða ógnir við þurfum að fást við á morgun. Fáir hefðu getað spáð fyrir um hryðjuverkin í Bandaríkjunum 9/11, vöxt ISIS eða netárásir sem gerast á hverjum einasta degi.“

Í viðtalinu, sem birtast mun í heild sinni í Morgunblaðinu á morgun, segir Stoltenberg sambandi NATO við Rússa best lýst sem tvískiptu. NATO þurfi að sýna styrk, en á sama tíma samstarfsvilja. Hann segir að framlag smáríkis á borð við Ísland sé mikils metið; hafa beri í huga að Ísland hafi verið eitt af stofnríkjum NATO árið 1949. 

„Við megum ekki gleyma því að Ísland var eitt af stofnríkjum NATO árið 1949, það var nákvæmlega jafn herlaust þá og í dag og litlu sem engu fé var þá ráðstafað til varnar- eða öryggismála. Landfræðileg staða landsins í miðju Atlantshafinu er mikilvæg, t.d. hefur flugvöllurinn í Keflavík skipt miklu máli í eftirliti í lofti á norðurslóðum, ekki síst þar sem fleiri rússnesk loftför, skip og kafbátar fara nú um Norður-Atlantshafið en fyrir nokkrum árum. Þá leikur Ísland mikilvægt hlutverk við ýmsa þjálfun innan NATO, m.a. í Afganistan og Kósóvó,“ segir Stoltenberg.

Jens Stoltenberg segir að aldrei verði að fullu komið í …
Jens Stoltenberg segir að aldrei verði að fullu komið í veg fyrir hryðjuverk. Kristinn Magnússon

Í viðtalinu rifjar hann einnig upp viðbrögð sín við hryðjuverkunum í Útey og Ósló 22. júlí 2011, en æðruleysi hans og allrar norsku þjóðarinnar vakti aðdáun og virðingu um heim allan. Hann hefur deilt þessari reynslu sinni og sýn með þjóðarleiðtogum í löndum þar sem hryðjuverk hafa verið framin. 

„Mér tókst að standa með eigin gildum þegar ég stóð frammi fyrir þessum hræðilegu atburðum árið 2011 og það eru þau skilaboð sem ég vil koma á framfæri sem framkvæmdastjóri NATO. Hryðjuverk eru grimmdarverk, þau eru skelfileg en þegar við höfum staðið frammi fyrir þeim þá virðist það besta í okkur koma fram; samstaða og kærleikur,“ segir Stoltenberg í viðtalinu sem birt verður í heild sinni í Morgunblaðinu á morgun.
mbl.is

Bloggað um fréttina