Netárás árás á öll aðildarríkin

Framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, sagði aðildarríki NATO geta virkjað fimmtu …
Framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, sagði aðildarríki NATO geta virkjað fimmtu grein bandalagsins verði þau fyrir netárás. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að ógnir af þessum toga séu vaxandi áhyggjuefni þar sem eðli þeirra er af öðrum toga en það sem við þekkjum sem snúa að þjóðríkinu,“ svaraði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, er hún og framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, voru spurð hvernig NATO getur aðstoðað smáríki við að bregðast við netvá á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

„Það er erfitt að rekja slíkar netárásir, þær geta komið frá einstaklingum og samtökum af ýmsum toga. En ég held að netöryggi er að fá mun meiri athygli nú en áður bæði hjá NATO og öðrum alþjóðastofnunum,“ sagði forsætisráðherra.

„Aðildarríki NATO og bandalagið sjálft eru að gera meira núna en nokkru sinni fyrr þegar kemur að því að bregðast við netvá. Á fundi okkar fyrir nokkru var samþykkt að netárás á ríki myndi skapa grundvöll til þess að virkja fimmtu greinina,“ sagði Stoltenberg.

Fimmta grein í stofnsáttmála NATO segir að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll.

Viðbragðsteymi

„Í öðru lagi höfum við ákveðið að við munum þurfa að styrkja netvarnir okkar, sem við höfum gert í stórum stíl síðustu ár með því að móta aðgerðir okkar og viðbrögð á sviði netöryggismála,“ útskýrði framkvæmdastjórinn og benti á að mikilvægt væri að samhæfa aðgerðir aðildarríkjanna og bandalagsins sjálfs.

„Við höfum meðal annars stofnað fleiri teymi sem geta verið send af stað í flýti til þess að aðstoða aðildarríki við að vernda kerfin þeirra,“ bætti hann við. „Í þriðja lagi skiptumst við á reynslu og þekkingu, við æfum okkur saman og vekjum athygli á málaflokknum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina