Núllsýnin ekki gengið eftir

90 km hámarkshraði miðast við bestu mögulegu aðstæður.
90 km hámarkshraði miðast við bestu mögulegu aðstæður. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er augljóslega óásættanlegt að yfir höfuð verði banaslys í umferðinni,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, við mbl.is. Árin 2007 til 2012 létust tveir í bílslysum frá Mýrdalsjökli austur að Höfn en árin 2013 til 2018 létust 17. Aukin umferð skýrir aukninguna að einhverju leyti.

Þórhildur segir það stefnu Samgöngustofu að hafa svokallaða núllsýn á umferðaröryggi. „Markmið okkar á alltaf að vera á þá leið að fólk slasist ekki eða látið lífið og reyna að gera allt til að efla öryggi á vegum úti.“

Núllsýnin hefur ekki gengið eftir en Þórhildur setur áðurnefndar tölur um aukinn fjölda þeirra sem hafa látist í umferðarslysum á Suðurlandsvegi í samræmi við aukinn fjölda ferðafólks hér á landi. Stór hluti erlendra ferðamanna sem hingað koma ferðast um Suðurlandsveginn.

90 km/klst. á einbreiðri brú galið

„Það sem er öryggismál á Suðurlandsvegi er það alls staðar,“ segir Þórhildur. Hún bendir á að Samgöngustofa hafi lagt mikið upp úr því að fræða ökumenn, innlenda og erlenda, um öryggismál.

Aðstæður eru ekki alltaf þær bestu á leiðinni frá Mýrdalsjökli …
Aðstæður eru ekki alltaf þær bestu á leiðinni frá Mýrdalsjökli að Höfn í Hornafirði, eins og þessi mynd frá Vík í Mýrdal ber með sér. Mbl.is/Jónas Erlendsson

„Einnig höfum við átt í samstarfi við bílaleigurnar, hópferðafyrirtækin, lögreglu, Landsbjörg og Vegagerðina,“ segir Þóhildur og bætir við að listinn sé ekki tæmandi.

Mál sem snúi að Samgöngustofu er breytt viðhorf ökumanna og þar nefnir Þórhildur sérstaklega hraðakstur. Nefnt hefur verið að lækka hámarkshraða á ákveðnum vegum eða vegköflum og Vegagerðin hefur þegar tekið ákvörðun um að lækka hámarkshraða við einbreiðar brýr.

„Það segir sig sjálft að það er galið að hármarkshraði á einbreiðri brú sé 90 km/klst.,“ segir Þórhildur.

Fólk verður að aka í samræmi við aðstæður

Hún segir að allir þurfi að róa árum að því að koma í veg fyrir hraðakstur. „Ef fólk væri þó ekki nema að aka samkvæmt löglegum hámarkshraða værum við strax búin að ná góðum árangri.“

Töluvert hefur borið á því að ekki þyki nóg gert til að auka öryggi ferðafólks á Suðurlandsvegi og að vegkaflinn, þótt víðfarinn sé, hafi setið eftir í fjárúthlutunum síðustu ára. Spurð um það svarar Þórhildur því til að Samgöngustofa tjái sig ekki um ákveðna vegkafla hvað þetta varðar.

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.
Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.

„Vegakerfið okkar er einn af þessum áhættuþáttum sem við stöndum frammi fyrir. Vegagerðin er með ákveðna forgangsáætlun varðandi viðhald á vegum,“ segir Þórhildur og heldur áfram:

„Það er hins vegar líka þannig að það er alveg sama hversu góður vegurinn er, ef fólk keyrir ekki í samræmi við aðstæður þá býður það hættunni heim. Jafnvel þó að við værum með þrjár akreinar í hvora átt og aðskildar akstursleiðir, ef við erum ekki að aka í samræmi við aðstæður þá skiptir það engu.“

Mannleg mistök nánast alltaf hluti af ástæðu

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is í febrúar að það gæti verið hugmynd að láta hámarkshraða fylgja aðstæðum hverju sinni. Þórhildur segir að það sé svo sannarlega eitthvað sem vert sé að skoða.

„Aðstæður geta verið þannig að það ætti að lækka hámarkshraða. Þessi 90 km/klst. hámarkshraði er settur miðað við bestu aðstæður hverju sinni; þar sem er bjart og gott skyggni og vegurinn þurr.“

Þórhildur bendir á að allt of margir ökumenn aki of hratt miðað við aðstæður. Það megi sjá þegar umferðarslys eru skoðuð en Samgöngustofa skráir slys og greinir eftir skýrslum lögreglu.

„Það er nánast í 100% tilfella sem mannleg mistök eru stór hluti af ástæðunni. Sama hversu góður vegurinn er, ef manneskjan undir stýri er ekki mjög meðvituð um að aka í samræmi við aðstæður þá erum við strax komin með mjög stóran áhættuþátt. Ökumaðurinn er stærsti áhættuþátturinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert