Skemmtilegast að leika glæpakvendin

Bríet í Crossed.
Bríet í Crossed. Ljósmynd/Aðsend

Hin 27 ára gamla Bríet Kristjánsdóttir hefur verið að gera það gott sem leikkona í Los Angeles í Kaliforníu-ríki undanfarin ár. Hún lék nýverið íslenska glæpakvendið Völu í bandarísku dramaþáttunum Blindspot og segir tækifærið hafa verið skemmtilegt, ekki síst vegna þess að illkvittnar konur séu einmitt hennar sérhæfing. 

„Ég fór í áheyrnarprufur fyrir einhverjum mánuðum og svo voru tökurnar um svipað leyti og þátturinn var bara að koma út núna í síðustu viku. Prufuna fékk ég í gegnum Árna umboðsmanninn minn og þau voru semsagt að leita að einhverjum til að leika íslenskan karakter. Hún er íslenskt glæpakvendi.

„Það er mjög fyndið því ég er mikið fengin í prufur fyrir glæpakvendi og allskonar illkvittnar konur. Þannig þetta var alveg fullkomið fyrir mig. Eftir prufuna bókaði ég svo hlutverkið og flaug svo til Íslands því tökurnar voru heima,“ segir Bríet um Blindspot.

Tilbreyting að leika Íslending

Blindspot eru í framleiðslu NBC-stöðvarinnar og þykja feikivinsælir og eru meðal annars með einkunnina 7.5 á IMDB-vefnum. Bríet segir það hafa verið skemmtilega reynslu að leika Völu og sömuleiðis að fá að taka þáttinn upp hérna heima.

„Hún er mjög mikilvæg söguþræðinum. Hún er svona hægri hönd gæja sem heitir Icecream og er íslenskur glæpakóngur. Þau vinna þarna sama í einhverjum glæpagengjum í undirheimunum. Icecream er reyndar leikinn af Bandaríkjamanni þó hann eigi að vera íslenskur, hann talaði með íslenskum hreim og gerði það alveg mjög vel. Alveg rúllaði því upp.“

Leikhópurinn á setti við tökur á Blindspot.
Leikhópurinn á setti við tökur á Blindspot. Ljósmynd/Aðsend

Bríet segir það hafa verið tilbreytingu að fá að leika íslenskan karakter, en hún hafi mestmegnis verið að leika amerískar persónur undanfarin ár.

„Ég er stundum að leika það sem er kallað úti evrópska karaktera þegar maður á að vera með bara einhvern almennan evrópskan hreim. En annars mjög mikið af amerískum skvísum þannig það var mikil tilbreyting að fá að leika íslenska stelpu.

„Mér fannst þetta alveg ótrúlega gaman því ég er svo vön því að vera hérna í sólinni og hitanum og þambandi vatn og svo vorum við þarna í tökum upp á jökli og niðri við sjóinn og þetta var bara allt annar pakki. Það var ótrúlega gaman að upplifa það en vá hvað mér var kalt,“ segir Bríet og hlær.

„Ég kem frekar oft heim en þá er ég ekki mikið hoppandi upp á jöklum og svona.“

Líður vel úti

Bríet hefur í nógu að snúast í Bandaríkjunum og þó að hugurinn leiti stundum heim til Íslands sé hún ánægð í veðurblíðunni í Kaliforníu.

„Ég er núna í tökum á kvikmynd sem heitir Crossed þar sem ég leik aðalhlutverk sem heitir Evelyn Cross. Þetta er svona action-thriller og Evelyn er barþjónn sem er svo dregin út í glæpastarfsemi. Allt voða spennandi.

Bríet Kristjánsdóttir.
Bríet Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Svo er ég alltaf í hafmeyjuþáttunum mínum, Life as a mermaid. Ég kom í þættina 2016, tíminn flýgur. Þeir ganga mjög vel. Þetta voru alltaf Youtube-þættir en þeir voru núna að færast yfir á Amazon-prime því það var svo mikil eftirspurn og áhorf. Það eru líka alltaf fleiri og fleiri farnir að kannast við mig úr þáttunum þannig það er mjög gaman hvað þeir ganga vel,“ segir Bríet og segir það einkennilega en jafnframt skemmtilega tilfinningu þegar ókunnugt fólk veit hver hún er.

„Mér líður ótrúlega vel hérna. En það er alltaf ótrúlega gaman að fara til Íslands í vinnu og senan er ótrúlega flott heima. En eins og er er mikið að gera hjá mér hérna og ég er líka með umboðsmann í London og er að fara þangað eftir tvær vikur fyrir verkefni. Ég ætla bara að sjá hvert verkefnin taka mig en eins og er líður mér vel hérna í sólinni. Í framtíðinni væri ég kannski til í að vera í Borgarleikhúsinu. Einhverntímann, eftir einhver ár.“

Fótbrotnaði í generalprufunni 

Þegar blaðamaður hefur það á orði að veðrið hérna hinum megin við Atlantshafið sé nú ekki búið að vera svo slæmt upp á síðkastið hlær Bríet og segir að skjótt skipast veður í lofti.

„Það er búið að vera svo kalt hérna. Hvað er að frétta. Ég er búin að vera bara úlpu. En ætli það hafi ekki alveg verið kominn tími á smá sól heima.“

Bríet í Crossed.
Bríet í Crossed. Ljósmynd/Aðsend

Bríet lærði til stúdentsprófs við Verzlunarskólann og þá þegar átti leiklistin hug hennar allan. Í kjölfarið flutti hún síðan út til Bandaríkjanna og lærði leiklist við einn virt­asta leik­list­ar­skóla Banda­ríkj­anna, The American Aca­demy of Dramatic Arts. Hún vann síðan í London í nokkurn tíma en kunni betur við Kaliforníu og flutti því tilbaka eftir tæplega tveggja ára dvöl í Bretlandi.

Bríet segir leiklistaráhugann alltaf hafa verið til staðar og að fyrsta hlutverkið hafi líklegast verið á Nemendamótssýningu Verzlunarskólans þegar Bugsy Malone var sett upp.

„Þá var það glæpakvendið, þarna byrjaði það. Leikstjórinn ákvað að breyta aðal glæpónum í konu svo ég gæti verið það hlutverk. Mér fannst það alveg geggjað, að taka bara strákahlutverk og vera geðveikt badass gella. Það var ótrúlega gaman. Svo var það á generalprufunni að það datt einhver ofan á fótinn á mér og ég fótbrotnaði. En svo setti leikstjórinn mig bara í hjólastól og ég gat verið með. Þarna fékk ég vissulega illmennið á bragðið í fyrsta sinn,“ segir Bríet kímin.

mbl.is