Sólskinsstundirnar aldrei fleiri

Þessi nutu veðurblíðunnar á Klambratúni fyrir nokkrum dögum.
Þessi nutu veðurblíðunnar á Klambratúni fyrir nokkrum dögum. mbl.is/Eggert

Sólskinsstundirnar fyrsta þriðjung júnímánaðar voru að meðaltali 15,7 um allt sunnan- og vestanvert landið. Það er nýtt met, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Alls voru sólskinsstundirnar 157 talsins fyrstu tíu daga mánaðarins. Næstflestar mældust sólskinsstundirnar í Reykjavík sömu daga árið 1924, 145,4, en fæstar voru þær þessa daga árið 2013, aðeins 13,4. Í fyrra mældust 22,9 sólskinsstundir fyrstu tíu daga júnímánaðar, að því er kemur fram á bloggsíðu hans.

Spurður út í veðrið næstu daga og hvort metið verði bætt enn frekar segir Trausti að ekki sé spáð jafnmikilli sól. Engu að síður er spáð hlýnandi veðri á landinu þótt ekki hlýni mikið í Reykjavík vegna hafgolu. „Það er spurning um hvernig úthaldið verður. Þetta er eins og einhver millitími,“ segir hann og bendir á að ýmislegt getur gerst þegar frá líður.

Þurrt hefur verið um nær allt land og hefur úrkoma hefur aðeins mælst 1,9 mm í Reykjavík, sú næstminnsta sömu daga á öldinni. Örlítið þurrara var sömu daga 2012. Árin 1924 og 1935 mældist engin úrkoma í Reykjavík fyrstu tíu daga júnímánaðar og 11 sinnum hefur úrkoma mælst minni en nú. Á Akureyri hefur úrkoma aðeins mælst 3,0 mm, sem er langt fyrir neðan meðal, að því er segir á á bloggsíðunni.

Trausti nefnir við mbl.is að síðasta vikan í maí hafi verið svipuð og það sem af er júní varðandi sólskinsstundirnar og því hafi góðviðrið staðið yfir í á þriðju viku.

mbl.is