Það er að skýrast hvenær ljúka má þingi

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra segir að þinglok velti …
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra segir að þinglok velti á því hvernig takist að afgreiða breytta fjármálaáætlun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir það munu ráðast í dag eða á morgun hvenær mun takast að ljúka þingstörfum. Ljóst er að klára þurfi nokkur mál.

Hann þorir ekki að fullyrða um þinglok en „miðað við gang mála eins og hann var síðustu daga fyrir hvítasunnu, ef hann heldur áfram næstu daga og menn ná kannski samkomulagi um þinglok, er reynslan sú að hlutirnir geti gengið hratt fyrir sig,“ segir Sigurður Ingi. Í dag eða á morgun skýrist hvort unnt verði að ljúka þingstörfum í vikunni.

Fjármálaáætlun til umræðu á fimmtudaginn

„Fjármálaáætlunin er hluti af þessu og hún verður kannski ekki tilbúin til umræðu fyrr en á fimmtudaginn,“ segir Sigurður Ingi. Hún er núna til umræðu í nefndum en fer ekki aftur inn í þingið fyrr en nefnd metur það svo.

Gagnrýni hefur komið fram á breytta fjármálaáætlun, meðal annars í orðum Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem fullyrti að í breyttri áætlun fælist 8 milljarða króna lækkun á framlögum ríkissjóðs til málefna öryrkja.

Sigurður Ingi segir ekki um niðurskurð að ræða, heldur ákveðið endurmat. „Við erum fyrst og fremst að bregðast við breyttum hagspám, sem þýðir að sú aukning sem við sáum fyrir okkur að gæti orðið á næstu árum verði hægari, en það er samt aukning,“ segir hann. „Við sáum fyrir okkur að til þess að búa í haginn fyrir framtíðina þurfum við svolítið að fara að hugsa meira um það hvernig við nýtum fjármunina, til dæmis með endurmati á útgjöldum,“ segir hann.

Ekkert breyst í orkupakkamáli

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að klára þau mál sem hafa farið í gegnum þinglega meðferð í vetur. Þau eru fjölmörg,“ segir Sigurður. Á meðal mála sem ríkisstjórni hafi lagt áherslu á að klára séu sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, breyting á fiskeldislögum og fleiri mál.

Til stóð að greidd yrðu atkvæði um fjölda mála í morgun, sem umræðu var þegar lokið um, en öllum atkvæðagreiðslum hefur verið frestað til hálf sex í dag.

Sömuleiðis er ríkisstjórnin öll á þeirri skoðun að þingsályktunartillaga um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sé útrædd og að hana beri að afgreiða á þessu þingi.

Um það hvort ríkisstjórnin hafi að einhverju leyti hugsað sér að láta orkupakkann bíða fram á haust, segir Sigurður Ingi að þar hafi ekkert breyst. Hann endurtekur að áhersla ríkisstjórnarinnar sé á að öll mál sem hafi fengið þinglega meðferð fari í gegn á þessu þingi.

Það sem hefur gert stöðuna flókna að mati Sigurðar er að stjórnarandstaðan sé klofin og komist ekki að samkomulagi um mál sem hún vill klára á þessu þingi eða fresta.

mbl.is