Varar fólk við að koma með bursta á völlinn

Íslenska landsliðið.
Íslenska landsliðið. AFP

Undirbúningur fyrir viðureign Íslands og Tyrklands á Laugardalsvellinum í kvöld hefur gengið vel fyrir sig og stemningin í íslenska hópnum er frábær segir Víðir Reynisson, öryggisfulltrúi KSÍ. Víðir segir mikilvægt að íslensku stuðningsmennirnir láti kvöldið snúast um fótboltann og varar við því að komi fólk með uppþvottabursta á völlinn geti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskan fótbolta.

„Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel. Það var allt á áætlun hjá okkur í dag og við erum mjög sátt með allt,“ segir Víðir.

Litið á burstann sem kynþáttaníð

„Það er eitt sem við höfum orðið vör við sem við höfum áhyggjur af og það er þessi húmor sem er búin að vera í gangi með þennan uppþvottabursta og að það sé einhver umræða um það að menn ætli jafnvel að taka með sér bursta á leikinn í kvöld,“ segir Víðir, en myndband af belgískum ferðamanni ota uppþvottabursta að fyrirliða tyrkneska liðsins, Emra Belözoglu, hefur valdið gríðarlegri reiði á meðal tyrkneskra stuðningsmanna.

„Við viljum koma því mjög skýrt á framfæri að það er litið á þetta sem kynþáttaníð í Tyrklandi og þar af leiðandi lítur UEFA á þetta sem kynþáttaníð. Ef okkar stuðningsmenn fara að veifa einhverjum burstum er það merki um kynþáttaníð og getur haft áhrif bara beint á leikinn, það getur haft áhrif að KSÍ og íslenskur fótbolti verði fyrir álitshnekki og síðan getum við jafnvel hlotið refsingu sem gæti til dæmis verið að við spilum leiki fyrir luktum dyrum.

„Þó að fólki finnist þetta kannski fyndið þá er það bara alls ekki svo og þetta getur orðið stórmál fyrir íslenska knattspyrnu.“

Stuðningsmennirnir ekki verið til vandræða

Að uppþvottaburstum frátöldum segist Víðir ekki búast við öðru en að allt gangi smurt fyrir sig, en uppselt er á leikinn í kvöld og er gert ráð fyrir um það bil 200 stuðningsmönnum tyrkneska liðsins.

„Það er ekkert annað sem við höfum fyrir okkur. Stuðningsmennirnir okkar eru þarna mættir til að styðja íslenska liðið og það er alveg sama hvaða læti hafa verið í einhverjum öðrum, þeir hafa aldrei látið það trufla sig. Það er ekki reiknað með því að það verði neitt vesen á tyrknesku stuðningsmönnunum sem eru að koma hérna í kvöld, þetta er ekki stór hópur og þeir hafa ferðast áður með liðinu og ekki verið til neinna vandræða. Við eigum von á því að fótboltinn sigri í kvöld og að þetta verði bara skemmtilegt.“

Sjaldan þurft að vökva jafn oft 

Þá segist Víðir vera gríðarlega ánægður með veðurblíðuna í dag.

„Þetta er náttúrulega bara frábært. Völlurinn er í besta ástandi sem hann hefur verið í lengi og við hlökkum mikið til kvöldsins. Það er alveg frábær stemning í okkar hópi. Það er vökvað alveg stöðugt og það er í sjálfu sér mjög óvanalegt að vallarstarfsmenn þurfi að vökva völlinn oft á meðan undirbúningur leiksins er í gangi og í hálfleik. Það er mjög sjaldgæft og hefur kannski einu sinni gerst á síðustu tuttugu árum. En við fögnum veðrinu og vökvum bara, teljum það ekki eftir okkur.“

Hvað varðar öryggisgæslu segir Víðir engar breytingar hafa orðið á þeim fyriráætlunum sem gerðar voru fyrir komu tyrkneska liðsins á sunnudag.

„Það er allt með mjög sambærilegu móti og þegar við spiluðum við þá seinast. Þetta er bara sama plan og samstarfið við tyrknesku öryggisverðina hefur gengið mjög vel.“

mbl.is

Bloggað um fréttina