„Afleiðing óhóflegrar bjartsýni“

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurskoðun fjármálastefnu ríkisins er afleiðing óhóflegrar bjartsýni við gerð síðustu stefnu. Þetta segir í umsögn Visðkiptaráðs Íslands sem ítrekar þar þau viðhorf sem fram komu í umsögn ráðsins um fjármálastefnu fyrir ári síðan og virðast nú hafa ræst.

Um alllangt skeið hafi Viðskiptaráð bent á að fjármálastefna og -áætlanir hafi byggt á of bjartsýnum forsendum, og rímar sú gagnrýni við gagnrýni fjármálaráðs og stjórnarandstöðu sem fram kom er áætlunin var upphaflega lögð fram í fyrra.

Í umsögninni segir einnig að undarlegt sé að ný fimm ára fjármálastefna skuli ná eitt og hálft ár aftur í tímann, eða til upphafs árs 2018 þótt ekki sé endilega gengið gegn lögum um opinber fjármál.

Viðskiptaráð telur mikilvægt að hið opinbera hjálpi til við að rétta hagkerfið með því að lækka skatta, einkum tekju- og bankaskatt. Þá þurfi ríkissjóður að einbeita sér að innviðaverkefnum sem séu til þess fallin að auka hagsæld til lengri tíma. Bendir ráðið á að rekstrarútgjöld ríkisins jukust um þriðjung (þó minna að raunvirði) á árunum 2013-2018.

Falla ætti frá fyrirhuguðum áformum um þjóðarsjóð sem óþarfur sé nú þegar ríkið skuldar lítið, Seðlabankinn býr yfir stórum gjaldeyrisforða og erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri.

Viðskiptaráð telur einnig að enn á ný sé fjármálastefna miðuð við bjartsýnustu spár. Sumarspá Hagstofunnar, sem stefnan byggir á, sé fremur bjartsýn og hafi stóru viðskiptabankarnir þrír allir gefið út nýrri spár sem máli dekkri mynd af stöðu mála. Samræmist þessi gagnrýni nýrri hagsjá Landsbankans, sem birt var í dag, og gagnrýni þingflokks Viðreisnar sem fram kom á blaðamannafundi flokksins nú fyrir hádegi. Segir Viðskiptaráð að fjármálastefna sem byggð er á bjartsýnustu spám gangi gegn grunngildum um varfærni í opinberum fjármálum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram endurskoðaða fjármálaáætlun fyrir árin …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram endurskoðaða fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert