„Auf Deutsch, bitte”

Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands er mættur á Bessastaði til fundar við Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands. Það var mikil viðhöfn þegar hann renndi í hlað á embættisbílnum.

Lúðrasveit Reykjavíkur lék undir móttökuathöfnina og gervöll ríkisstjórn Íslands tók í höndina á Steinmeier, er Guðni leiddi hann um planið framan við Bessastaði. Svo virtist vera sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafi verið sá eini sem lagði í að bjóða forsetann velkominn á hans móðurmáli.

Frank-Walter Steinmeier og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum í dag.
Frank-Walter Steinmeier og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum í dag. mbl.is/Arnþór

„Auf Deutsch, bitte,” leiðbeindi Guðni Guðmundi er hann kynnti Steinmeier fyrir Guðmundi, þó að sjálfur hafi Guðni spjallað við hann á ensku. Guðmundur kvað hafa verið í námi í Þýskalandi á sínum tíma.

Leikskólabörn höfðu einnig stillt sér upp í hring við túnið og gengu forsetarnir og eiginkonur þeirra um og heilsuðu með virktum. Guten Morgen og svo Tschüss!

Það var vel tekið á móti Frank-Walter Steinmeier á Bessatöðum.
Það var vel tekið á móti Frank-Walter Steinmeier á Bessatöðum. mbl.is/Arnþór

Forseti Þýskalands, hvers embætti er hliðstætt íslenska forsetans, það er án mikillar pólitískrar ábyrgðar, verður hér á landi í tvo daga og dagskráin er þétt.

Í dag opnar hann sýningu um þýskar verkakonur á Íslandi í Árbæjarsafni og svo er kvöldverður í Hörpu í kvöld. mbl.is er á svæðinu og birtir myndir og frásagnir af heimsókn forsetans í dag.

mbl.is/Arnþór
Sólin skein á leiðtogana á Bessastöðum í morgun.
Sólin skein á leiðtogana á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Snorri
mbl.is