Baðst auðmjúkur afsökunar á burstanum

Corentin Siamang hefur beðist afsökunar á uppátækinu á Keflavíkurflugvelli, sem …
Corentin Siamang hefur beðist afsökunar á uppátækinu á Keflavíkurflugvelli, sem átti bara að vera saklaust grín.

Belginn Corentin Siamang, sem ærði marga stuðningsmenn tyrkneska landsliðsins í knattspyrnu með því að reka uppþvottabursta framan í leikmann liðsins á Keflavíkurflugvelli, baðst í gær innilega afsökunar á uppátæki sínu.

Á myndskeiði sem vinur hans birti má sjá Siamang ásamt tyrkneskumælandi félögum sínum, í tyrkneskri landsliðstreyju, eins og sjá má hér að neðan.


Siamang hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann rak uppþvottaburstann framan í tyrkneska knattspyrnumanninn Emre á Keflavíkurflugvelli að kvöldi sunnudags.

Hann lýsti því í viðtali við belgíska fjölmiðilinn RTL í gær að honum og sömuleiðis vinum hans og öðrum nákomnum hafi verið hótað grófu ofbeldi, jafnvel lífláti, í gegnum samfélagsmiðla í kjölfar uppátækisins, sem hann segir hafa verið grín en margir Tyrkir hafa túlkað sem örgustu vanvirðingu, jafnvel rasisma.

Reiði þeirra hefur ekki einungis beinst að Siamang og fólki honum nákomnu, heldur líka mörgum Íslendingum, þar á meðal leikmönnum yngri landsliða Íslands, sem jafnvel hafa fengið líflátshótanir á samfélagsmiðlum vegna málsins.

„Ég er alls enginn rasisti,“ segir Siamang og leggur áherslu á að þetta hafi bara verið grín – ekkert meira.

mbl.is