Forsetar spenntir fyrir ferðalagi

Guðni Th. Jóhannesson og Frank-Walter Steinmeier ræddu loftslagsmál, sameiginlega hagsmuni á norðurslóðum og alheimspólitík á fundi sínum á Bessastöðum fyrir hádegi í dag.

Á blaðamannafundi eftir fundinn sagði Steinmeier frá því að samræður hans og Guðna hefðu leitt það í ljós strax frá fyrstu stundu hve líka sýn þeir hefðu á alþjóðamál og á það hvernig tryggja mætti sem best viðskiptasambönd þjóða um heim allan. Þar skyldi forðast sundrungu.

Guðni tók til máls á þýsku á blaðamannafundinum en sagði ráðlegra að nota ensku að mestu leyti, þar sem hann væri óvanur því að tjá sig á þýsku. Enskuskotin þýska ætti þó ekki að vera vandamál, sagði hann, enda Þjóðverjar duglegir að taka upp ensk orð í sitt tungumál. Sem dæmi um það nefndi hann "Das Burnout," sem Þjóðverjar nota um kulnun í starfi. Það vakti lukku meðal Þjóðverja að heyra hvernig Íslendingar orðuðu þetta, kulnun.

Menn dásömuðu annars veðrið og kváðust spenntir fyrir ferðalagi Steinmeiers um Ísland. „Við hlökkum til ferðarinnar í því sem virðist ætla að vera besta veður ársins hér á landi,“ sagði Guðni.

Hér að ofan er myndband af hluta úr ræðu Steinmeier. „Landfræðileg fjarlægð á milli landanna hefur ekki hindrað náin samskipti þeirra á milli. Fyrsta samtalið okkar í morgun er búið að sýna mér hve lík sýn okkar á breytingunum í heiminum er í raun og veru. Sömuleiðis hefur sýnt sig að náin vinátta og samstarf milli landanna er ekki aðeins á hinu pólitíska sviði heldur í íþróttum, menningu og vísindum,“ segir Steinmeier í því.

Þjóðernisöfl í vexti á kostnað demókratískra flokka

Er Steinmeier var spurður um það hvernig honum hugnaðist uppgangur þjóðernispopúlískra afla í Evrópu, og hvort hann teldi að slíkt gæti ratað á strendur Íslands, sagði hann að áríðandi væri fyrir þjóðir heimsins að hafa sterka demókratíska flokka til að berjast gegn þessari þróun. 

Það var vel tekið á móti Frank-Walter Steinmeier á Bessastöðum.
Það var vel tekið á móti Frank-Walter Steinmeier á Bessastöðum. mbl.is/Arnþór

Demókratískir flokkar hafi verið að tapa fylgi víða en til þess að sporna við uppgangi síður æskilegra afla væri mikilvægt að demókratískir flokkar ynnu aftur það traust sem þeir áður höfðu. „Að sporna við þessu veltur mjög á demókratísku flokkunum. Sérstaklega þeim sem sitja í ríkisstjórnum heimsins,“ sagði Steinmeier.

Þá sagði Steinmeier að forsetarnir hefðu verið sammála um að marghliða alþjóðlegt samstarf væri eitthvað til þess að byggja enn frekar upp, frekar en að hafna því, eins og gagnrýnendur þess hafi gerst sekir um síðustu misseri. Til lítils er að vinna með því að hafna slíku, sagði Steinmeier.

Ísland geti verið fyrirmynd Þjóðverja í loftslagsmálum

Forsetarnir voru spurðir hvor um sig út í það hvað Þjóðverjar gætu lært af Íslandi í loftslagsmálum en sá málaflokkur er sérstakt hugðarefni Steinmeiers. 

Steinmeier sagði að Þjóðverjar hefðu margt að læra af Íslendingum í umhverfismálum, ekki síst í því hve hröð orkuskiptin eru að verða á Íslandi, það er hve skjótt er skipt yfir í endurnýjanlega orkugjafa í stað til dæmis kola. Í Þýskalandi er verið að leitast við að gera þetta en það gengur hægar. 

Þá sagði Steinmeier að íslensk stjórnvöld hafi gert vel í að skipta um orkugjafa á vissum stöðum án þess að valda of miklum breytingum á lífi fólks. „Íslenska ríkisstjórnin hefur alltaf náð að halda jafnvæginu í umhverfisvernd, vitandi að það kostar peninga að skipta um orkugjafa en í senn gætandi að því að valda ekki truflun á efnahagslífi eða að láta umhverfisvernd hafa neikvæð áhrif félagslega,“ sagði Steinmeier.

Guðni sagði að Íslendingar þyrftu að vera duglegri að flokka og endurvinna, eins og Þjóðverjar. „Menn hafa haft á orði við mig hve iðnir Þjóðverjar eru við flokkun og það mættu Íslendingar taka til fyrirmyndar,“ sagði Guðni.

Þétt dagskrá þýska forsetans

Blaðamannafundurinn var haldinn á Bessastöðum fyrir hádegi í dag, eftir að forsetinn tók á móti Steinmeier við hátíðlega athöfn. 

Steinmeier er í tveggja daga heimsókn á Íslandi. Þýska sendinefndin sem fylgir honum virðist skipuð tugum manna, sem annast ýmislegt í tengslum við heimsóknina. Konan hans, Elke Büdenbender, sem hefur starfað sem dómari, er með eiginmanni sínum.

Í dag snæðir Steinmeier hádegisverð í Marshallhúsinu á Granda ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem einnig var viðstödd móttökuathöfnina á Bessastöðum í dag. Í Marshallhúsinu kíkja þau á safn listaverka Ólafs Elíassonar. Svo fer Steinmeier á Alþingi, konan hans í Össur og svo er hátíðarkvöldverður á Kolabrautinni í Hörpu í kvöld.

Á morgun fer Steinmeier í Hellisheiðarvirkjun og til Vestmannaeyja, þar sem íslenskar umhverfislausnir verða kynntar fyrir honum og hans teymi.

Frank-Walter Steinmeier og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum í dag.
Frank-Walter Steinmeier og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum í dag. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert