Funduðu í tæpa 14 tíma

Alþingi samþykkti 16 frumvörp í gær, en fundur stóð í …
Alþingi samþykkti 16 frumvörp í gær, en fundur stóð í þrettán og hálfan tíma. mbl.is/​Hari

Þingfundur stóð í um þrettán og hálfan klukkutíma í gær, en hann hófst hálfellefu að morgni og lauk rétt fyrir miðnætti. Leidd voru í lög sextán frumvörp, þar á meðal lækkun virðisaukaskatts á tíðavörur og getnaðarvarnir ásamt nýjum umferðarlögum sem hækka hjálmskyldualdur við hjólreiðar úr 15 árum í 16 ár.

Þingfundur hefst í dag klukkan 10:30 og eru enn 25 mál á dagskrá.

Þá voru einnig samþykkt frumvörp um breytingar á stjórnsýslu- og upplýsingalögum sem fela meðal annars í sér að opinberir starfsmenn hafi frelsi til að tjá sig opinberlega um atriði er tengjast starfi þeirra, svo fremi sem þagnarskylda eða trúnaðarskyldur standi því ekki í vegi.

„Ég er mjög ánægð með þennan áfanga til að auka gagnsæi og upplýsingafrelsi. Með þessum frumvörpum stígum við mikilvægt skref í átt að gagnsærri stjórnsýslu þannig að Ísland verði í fremstu röð varðandi reglur á þessu sviði,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á vef Stjórnarráðsins.

Þá telur hún lögin gera ríkari kröfur til stjórnvalda til að tryggja betur aðgengi almennings að upplýsingum.

mbl.is