„Gæsin var í felum af ástæðu“

Gæsirnar á hringtorginu vöktu fyrst athygli almennings í byrjun júní.
Gæsirnar á hringtorginu vöktu fyrst athygli almennings í byrjun júní. Ljósmynd/Hallur Már

„Ég var búinn að fylgjast með blessuðum gæsunum frá því þær komu þarna og séð þær hvæsa rækilega á hjólreiðamenn. Svo sé ég allt í einu að þarna er kominn vatnsdallur og brauð og mávarnir komnir í,“ segir Anton Magnússon, sem keyrir um hringtorgið við Stekkjarbakka í Breiðholti oft á dag vegna vinnu sinnar og hefur fylgst þar með gæsum sem vakið hafa forvitni almennings með háttarlagi sínu undanfarnar vikur.

Svo virðist vera að einhver velunnari gæsanna hafi viljað gera góðverk með því að færa þeim vatn og brauð en ekki áttað sig á að með því kæmi hann upp um gæsina, sem lá á hreiðri inni í gróðrinum.

„Átu ungana þar sem ég stóð og horfði á“

„Ég horfi bara á mávagerið ráðast á gæsina þar til hún steig upp af hreiðrinu og þá tóku þeir bara ungana, það var ekki flóknara, því miður. Þeir átu bara ungana þar sem ég stóð og horfði á,“ lýsir Anton fyrir blaðamanni mbl.is, en hann vakti fyrst athygli á málinu innan Facebook-hópsins Íbúasamtökin Betra Breiðholt og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa.

Anton segir gæsina hafa verið í felum af ástæðu og að best sé að mennirnir láti náttúruna vera. 

„Þarna ætlar fólk að vera voða blítt og gott og aðstoða hana, en náttúran er bara þannig að hún ætlar að gera þetta sjálf og hefur gert í þúsundir ára. Við eigum ekkert að stíga inn í svona, gassinn sér um gæsamömmu þangað til hún getur gert það sjálf og þá er þetta ekkert vandamál.“

Anton segir gæsina hafa verið í felum af ástæðu og …
Anton segir gæsina hafa verið í felum af ástæðu og að best sé að mennirnir láti náttúruna vera. Ljósmynd/Hallur Már
mbl.is

Bloggað um fréttina