Heitasti dagur sumarsins í dag

Íslendingar kunna vel að meta sólina sem hefur skinið skært …
Íslendingar kunna vel að meta sólina sem hefur skinið skært síðustu daga. mbl.is/Hari

„Þetta var heitasti dagurinn það sem af er sumri,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um daginn í dag sem er að kveldi kominn. Hitinn mældist 25,3 stig við Skarðsfjöruvita á Suðurlandi í dag. 

Hlýtt var víða um land í dag og fór hitinn til að mynda í tæp 24 stig í Eldhrauni skammt frá Skarðsfjöruvita. Í innsveitum á Suðurlandi fór hitinn upp fyrir 20 stigin á fjölmörgum stöðum.  

Óhætt er að segja að veðurspáin hafi gengið eftir en í spá veðurfræðinga síðust daga hafa þessar tölur verið nefndar til sögunnar, landsmönnum til ómældrar gleði.  

Ungir sem aldnir kunna að láta sólina sleikja kroppana.
Ungir sem aldnir kunna að láta sólina sleikja kroppana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að hitinn hafi farið í dag í rúmar 25 gráður þá er það langt í frá að vera hæsti hiti sem mælst hefur á landinu en það eru um 30 gráður.  

Áfram er spáð hlýju og björtu veðri á morgun og verður hitinn á bilinu 13 til 23 stig, hlýjast á Suður- og Suðvesturlandi. Hæg norðlæg átt 5-13 m/s. Lítils háttar rigning verður fyrir norðan og austan. Hitinn verður þó ögn lægri norðaustan til eða 7 til 14 stig.

Þrátt fyrir fína spá fyrir morgundaginn telur Daníel ólíklegt að verði hærri hiti á morgun.

Þokan var býsna þykk þegar horft var niður eftir Reykjanesbrautinni …
Þokan var býsna þykk þegar horft var niður eftir Reykjanesbrautinni í kvöld. mbl.is

Frá því um klukkan sex í dag breyttist veðrið á höfuðborgarsvæðinu þegar það fór úr því að vera nánast heiðskírt í að vera þungskýjað. „Það gerðist þegar vindur snerist til norðvesturs. Það hjálpaði ekki að það hafi verið sólríkt í dag þá sogar hafgolan inn skýin,“ segir Daníel.    

Þrátt fyrir að flestir landsmenn séu ánægðir með sólina eru margir orðnir langeygir eftir rigningu. Að sögn Daníels er ekki að sjá neina rigningu í kortunum fyrir Suður- og Vesturland í bráð. Mögulega gæti verið einhver glæta á að það rigni á þriðjudaginn í næstu viku en enn sem komið er er of snemmt að segja til um það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert