Hjólagarpar hituðu upp og hjóluðu í Reykjadal

Hjólagarpar kíktu í Reykjadalinn,
Hjólagarpar kíktu í Reykjadalinn, Ljósmynd/Aðsend

Tvöhundruð hjólreiðagarpar fjölmenntu í samhjól en lagt var upp frá Egilshöll og hjólað inn Mosfellsdalinn að Reykjadal í kvöld. Hjólakvöldið var upphitun fyrir WOW Cyclothon keppnina sem mun fara fram dagana 25. – 29. júní en hjólaðir voru fyrstu kílómetra keppnisleiðarinnar. Í lokin var svo komið við í sumarbúðunum í Reykjadal og aukaorka fengin í sameiginlegri grillveislu.

Viðburðurinn markaði að formleg söfnun er nú hafin í WOW Cyclothon árið 2019 og liðin eru farin að keppast við að safna áheitum. Aðalstyrkur keppninnar í ár mun renna óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal sem að Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra á og rekur. 

Hjólagarparnir gerðu veitingunum góð skil í Reykjadal.
Hjólagarparnir gerðu veitingunum góð skil í Reykjadal. Ljósmynd/Aðsend

Styrkurinn sem kemur úr áheitasöfnun mun fara í mjög þarfa viðbyggingu við sumarbúðirnar sem mun bæta aðstöðu og aðgengi til muna, þá meðal annars stækka við matsal svo að rúmara sé um marga í hjólastól.

Um 250 börn og ungmenni koma árlega í sumarbúðirnar en þau eiga það öll sameiginlegt að eiga ekki kost á annarri sumardvöl vegna fötlunar. Sumarbúðirnar hafa það að leiðarljósi að skapa ævintýri og nýjar upplifanir fyrir alla þá sem þangað sækja.

Margir skoðuðu aðstöðuna í Reykjadal.
Margir skoðuðu aðstöðuna í Reykjadal. Ljósmynd/Aðsend

Mörg lið eru skráð til leiks  í ár og Hjólakraftur verður á sínum stað. Um 90 milljónir hafa safnast frá því að WOW Cyclothon hóf göngu sína og safnað hefur verið fyrir hin ýmsu góðu málefni, en markmiðið í ár er að brjóta hundrað milljóna króna múrinn

Lagt var af stað frá Egilshöllinni í kvöld.
Lagt var af stað frá Egilshöllinni í kvöld. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is