Leita upplýsinga um líkamsárás

Lögreglan á Suðurlandi leitar vitna að líkamsárás sem átti sér …
Lögreglan á Suðurlandi leitar vitna að líkamsárás sem átti sér stað aðfaranótt sunnudags. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurlandi leitar nú upplýsinga um líkamsárás, sem talin er hafa átt sér stað um kl. 4 aðfaranótt sunnudags nærri skemmtistaðnum Hvíta húsinu á Selfossi, nánar tiltekið gegnt Bílanaust.

Líkamsárásin hefur verið kærð til lögreglu, en hún mun hafa átt sér stað í kjölfar þess að þolandi árásarinnar ræddi við ökumann leigubifreiðar.

Árásin átti sér stað eftir tónleika sem voru liður í bæjarhátíðinni Kótelettunni, sem fram fór á Selfossi síðustu helgi.

Lögregla óskar eftir því að þeir sem geta veitt upplýsingar um atvikið hafi samband við lögreglu á póstfangið sudurland@logreglan.is.

mbl.is