Forsetinn þýski í Ráðherrabústaðnum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Frank-Walter Steinmeier, forseta Þýskalands, í Ráðherrabústaðnum …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Frank-Walter Steinmeier, forseta Þýskalands, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu eftir fund þeirra í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi loftslagsmál og sjálfbæra þróun við Frank-Walter Steinmeier forseta Þýskalands á fundi þeirra í Ráðherrabústaðnum sem hófst klukkan þrjú í dag.

Áður höfðu þau snætt hádegisverð í Marshallhúsinu í boði Katrínar, ásamt verulega fjölmennu fylgdarliði forsetans þýska, og notið leiðsagnar Ólafs Elíassonar um listaverkasal hans þar á bæ.

Marshall húsið séð frá Reykjavíkurhöfn. Í suðurendanum er sýningarrými Ólafs …
Marshall húsið séð frá Reykjavíkurhöfn. Í suðurendanum er sýningarrými Ólafs Elíassonar og i8 gallerís. Á neðstu hæðinni er veitingastaður og bar. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Katrín og Frank-Walter ræddu einnig uppgang popúlískra afla í Evrópu og slíka þróun innan Evrópusambandsins en hann var einnig inntur eftir viðhorfum sínum til slíkra mála á blaðamannafundi á Bessastöðum fyrr í dag. 

Forsetinn er þá einkar áhugasamur um aðgerðir Íslendinga í loftslagsmálum, sem hann hefur sagt til fyrirmyndar.

Fundurinn við Katrínu var það síðasta á þéttskipaðri dagskrá þýska forsetans hér á landi í dag fyrir utan kvöldverð sem hann mætir í á Kolabrautinni í Hörpu í kvöld með forsetahjónunum. Þar leikur Víkingur Heiðar Ólafsson á píanó fyrir þjóðhöfðingjana.

Opinber heimsókn Steinmeier hófst formlega í morgun og strax í fyrramálið heldur hann í ferð á Suðurland, þar sem hann heimsækir Hellisheiðarvirkjun og svo Vestmannaeyjar.

mbl.is