Stoltenberg var eini karlinn

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO. mbl.is/​Hari

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, var eini karlmaðurinn í fundarherberginu í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þegar sendinefndir NATO og forsætisráðuneytisins funduðu þar í gær. Hann segir slíkt kynjahlutfall ánægjulegt.

Stoltenberg tjáir sig um þetta á Instagram-síðu sinni þar sem hann birtir mynd af fundahöldunum. Á fundinum, sem samtals tíu manns sátu, var m.a. rætt um kjarnorkuvopnatakmarkanir, afvopnunarmál, fjölþáttaógnanir, netöryggismál og stöðu jafnréttismála, að því er fram kemur á vefsíðu forsætisráðuneytisins. Einnig ræddu Stoltenberg og Katrín Jakobsdóttir þar um málefni norðurskautsins, þá umhverfisvá sem gæti fylgt aukinni umferð um svæðið og mikilvægi samstarfs um málefni norðurskautsins. 

Stoltenberg kom hingað til lands í gærmorgun og hélt af stað af landi brott í morgun. Í þessari stuttu heimsókn sinni veitti hann blaðamanni Morgunblaðsins viðtal, sem birt er í blaðinu í dag. 

„Öryggis- og varnarmál eru svið sem hafa, hefðinni samkvæmt, verið einokuð af körlum. Við eigum enn eftir að fara um langan veg, en mér þótti ánægjulegt að vera eini karlmaðurinn í herberginu þegar NATO-sendinefnd mín fundaði með sendinefnd íslenska forsætisráðherrans í Reykjavík,“ segir í Instagram-færslu Stoltenbergs.

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert