Þrotabú Saga Capital vann í Hæstarétti

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur hefur vísað frá héraðsdómi máli sem tengist greiðslu þóknunar til þrotabús fjárfestingabankans Saga Capital og gert F. fasteignafélagi ehf. að greiða þrotabúinu 1,5 milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Kærður hafði verið úrskurður Landsréttar þar sem ógilt var ákvörðun kröfuhafafundar, sem var haldinn við slitameðferð Saga Capital árið 2016, um greiðslu þóknunar til slitastjórnar félagsins upp á 40 milljónir króna auk virðisaukaskatts.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að í málinu sé óumdeilt að slitastjórnarmönnum hafi verið greidd þóknun í samræmi við ákvörðun kröfuhafafundar og þá þannig að í hlut Ástráðs Haraldssonar, núverandi héraðsdómara, hafi komið 20 milljónir króna, Arnars Sigfússonar lögmanns tíu milljónir króna og Sigrúnar Guðmundsdóttur endurskoðanda tíu milljónir króna en í öllum tilvikum hafi virðisaukaskattur verið lagður við þær fjárhæðir.

Í reifun málsins segir að samkvæmt 128. grein laga um gjaldþrotaskipti sé unnt við gjaldþrotaskipti að andmæla á skiptafundi réttmæti þóknunar, sem skiptastjóri teldi sig eiga tilkall til vegna starfa sinna, og leita eftir atvikum dómsúrlausnar um það efni.

Á hinn bóginn leiddu ákvæði laga um fjármálafyrirtæki ekki til þess að skiptastjóri eða skiptafundur í þrotabúinu yrði fremur en endranær bær til að taka ákvörðun um réttmæti þóknunar sem fyrrverandi fyrirsvarsmaður félagsins, eftir atvikum slitastjórnarmaður, hefði látið greiða sér fyrir störf sín í þágu þess áður en til gjaldþrotaskiptanna hefði komið.

Talið var að úr réttmæti slíkrar aðgerðar yrði fráleitt leyst í dómsmáli heldur yrði þrotabú félagsins, vildi það ekki una við slíka ráðstöfun, að leita riftunar á henni og endurheimtu á greiðslunni. Engin stoð væri fyrir því í lögum að reka mál í þeim búningi sem varnaraðili kaus að klæða ágreining um umrædda þóknun og því var málinu vísað frá héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert