Vindlaþef Hamréns dómgreindarleysi

Erik Hamrén landsliðsþjálfari á hliðarlínunni í gær.
Erik Hamrén landsliðsþjálfari á hliðarlínunni í gær. mbl.is/Hari

„Ég hef ekki séð svona lagað í marga áratugi. Mér er sérstaklega misboðið þar sem KSÍ, sem eitt aðildarfélaga ÍSÍ, beitir sér sérstaklega í forvörnum,“ segir Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is um atvik á blaðamannafundi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í gærkvöldi. Þar dró Erik Hamrén landsliðsþjálfari upp stóran vindil og gaf í skyn að hann ætlaði að fagna sigrinum með því að reykja hann.

Guðlaug segir að það verði að teljast mikið dómgreindarleysi af hálfu landsliðsþjálfarans að opinbera það að hann hafi ætlað að fagna sigrinum með því að reykja tóbak. Það sendi skrítin skilaboð út í samfélagið.

Hamrén dró upp stóran vindil og sagði við blaðamenn að …
Hamrén dró upp stóran vindil og sagði við blaðamenn að hann ætlaði að reykja hann í gærkvöldi. Skjáskot úr útsendingu Vísis af blaðamannafundinum.

„Sigurinn var dásamlegur, en að flagga því í mynd og viðtali, það finnst mér afskaplega ósmekklegt og skrítin skilaboð til barna og ungmenna sem líta mjög upp til allra þessa aðila,“ segir Guðlaug, sem hefur ritað formanni og framkvæmdastjóra KSÍ bréf þar sem hún lýsir áliti sínu á þessu atviki.

Í bréfinu segir Guðlaug ljóst að út frá þeirri forvarnastefnu sem kemur fram á síðu ÍSÍ, sem KSÍ er aðili að, sé landsliðsþjálfarinn alls ekki að fara eftir henni. Hún furðar sig sömuleiðis á því að hafa ekki fundið neitt fræðsluefni um forvarnir á vef KSÍ.

Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.
Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.

Fyrri þjálfarar ekki hampað tóbaki á sama hátt

Tóbaksnotkun fyrri þjálfara íslenska karlalandsliðsins hefur vakið nokkra athygli, sérstaklega í ljósi þess að KSÍ hefur unnið margvíslegt forvarnastarf gegn tóbaksnotkun, meðal annars herferðina eftirminnilegu „Bagg er bögg“, sem beindist gegn munntóbaki.

Eitt sinn sást til Ólafs Jóhannessonar fá sér í nefið á bekknum á Laugardalsvelli á meðan landsleikur stóð yfir og þá mætti Lars Lagerbäck eitt sinn í blaðaviðtal með úttroðna efri vör af tóbaki. Báðir báðust afsökunar á tóbaksnotkuninni í störfum sínum.

Guðlaug segir aðspurð að henni þyki það að sjálfsögðu alveg jafn slæmt, en að fyrri þjálfarar hafi þó ekki hampað tóbaki á jafn áberandi hátt og Erik Hamrén gerði eftir sigurinn gegn Tyrklandi í gærkvöldi.

Í niðurlagi bréfsins sem hún ritaði þeim Guðna Bergssyni og Klöru Bjartmarz hjá knattspyrnusambandinu í morgun segir að hún vonist til þess að sjá skilaboð sem þessi ekki aftur frá einni stærstu og vinsælustu íþróttahreyfingu landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert